136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast hjá hæstv. fjármálaráðherra sem lýsti því hér yfir að framtíðarstefna hans og flokks hans og þessarar ríkisstjórnar inn í næsta kjörtímabil sé að hækka skatta. Því var þó lýst yfir að þetta væri slíkt stórmál að ríkisstjórn sem ætlar að sitja í 80 daga mundi ekki ráðast í skattahækkanir fyrir kosningar þó svo að hún ætli að ráðast í miklar breytingar á stjórnarskránni og í rauninni að endurskrifa stjórnskipulagið sem er auðvitað ekki minna mál.

Ég hef áhyggjur af því að heimilin í landinu ráði ekki við skattahækkanir. Það er rétt að hér hefur orðið efnahagshrun en þegar við horfum upp á háa vexti, háa verðbólgu, lækkun launa, atvinnuleysi, hrun krónunnar og fleira slíkt þá held ég að stjórnvöld ættu að forðast að stíga það skref að hækka (Forseti hringir.) skatta á fólkinu í landinu og taka enn hærra hlutfall launa þeirra í sína vörslu en þau gera nú þegar.