136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:23]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það býsna vogað af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega frjálshyggjumönnunum tveimur, sem töluðu á undan mér, hv. þingmönnum Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Sigurði Kára Kristjánssyni, að tala um skattamál í þessu umhverfi. Það er eins og þeir hafi ekki áttað sig á að það er gjaldþrot efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins að kenna að við stöndum í þessum sporum. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í afarsnarpri ræðu hefur sú efnahagsstefna og sú skattastefna gert það að verkum að við stöndum í þessum sporum núna. Vaxandi ójöfnuður hefur átt sér stað í íslensku samfélagi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins á síðustu 18 árum og einhver þarf að borga, við vitum það. Við vitum að einhver þarf að borga. Það er ekki hægt að koma upp í ræðustól Alþingis og ætla núna í aðdraganda prófkjöra að gera allt fyrir alla. Það er einfaldlega ekki hægt. (Gripið fram í.) Þetta snýst um að breyta þarf skattkerfinu, taka upp þrepaskipt skattkerfi og hækka persónuafsláttinn. (Forseti hringir.) Það er eina leiðin til að jafna skatta á milli þeirra sem meira hafa milli handanna og hinna sem hafa minna.