136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við ræðum skattamál og ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra í því að það er verk næstu ríkisstjórnar að móta langtímastefnu í skattamálum. Ég vil hins vegar minna ágæta sjálfstæðismenn á það, sem koma hér upp sem boðberar skattalækkunar, að í valdatíð þeirra hefur samneyslan aukist ár frá ári. Skattar á fólk og fyrirtæki hafa þannig almennt verið að hækka. Ríkið hefur verið að taka til sín meira í samneysluna en ekki öfugt. (Gripið fram í.) Sjálfstæðismenn geta ekki komið hér upp sem boðberar skattalækkana ef við horfum á þau verk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir á umliðnum 18 árum. (Gripið fram í.) Samneyslan hefur verið að aukast ár frá ári og um það verður ekki deilt. Framsóknarflokkurinn er ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Framsóknarflokkurinn er ekki endilega á móti lítilli samneyslu en hins vegar verða sjálfstæðismenn að átta sig á því að þeir hafa verið að auka samneysluna (Forseti hringir.) á undangengnum árum. Þeir hafa verið að auka við báknið en ekki minnka það þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins.