136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:42]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er mín afdráttarlausa skoðun að sérstök gjaldtaka á þjóðvegum landsins eigi ekki að eiga sér stað. Þjóðvegirnir eru lífæð allra landsmanna og hluti af því grunnneti sem byggir upp samfélag okkar og starfsemina sem við höldum úti og öllu sem gerist. Þeir eru hluti af grunnnetum samfélagsins. Og þó að menn hafi fundið rök fyrir gjaldtöku á sínum tíma þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð við þær aðstæður sem þá voru, eru þau ekki lengur fyrir hendi.

Hvalfjarðargöngin eru hluti af almenna þjóðvegakerfi landsins og ég tel að sá kostnaður sem fólginn er í því, hvort sem það er fjármagnskostnaður eða viðhaldskostnaður, sem er reyndar minni þar en á vegum annars staðar sem eru ofan jarðar, (Forseti hringir.) eigi að vera hluti af samfélagskostnaðinum og þarna eigi allir að sitja við sama borð. En þarna er hreinlega verið að mismuna (Forseti hringir.) fólki eftir búsetu með því að taka sérstakt gjald á þessum vegi.