136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

ljósleiðarastrengirnir Farice og Danice.

314. mál
[14:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ármann Kr. Ólafsson) (S):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar höfum lagt á það ríka áherslu að byggja upp öflugt fjarskiptanet við umheiminn og var ljósleiðari Farice mjög mikilvægt framlag í þeim efnum. Það var líka merki um mikinn stórhug í upplýsingatæknimálum að ráðist var í gerð Danice-ljósleiðarans eða lagningu sem hefur margfalda burðargetu í samanburði við Farice-strenginn sem þó er öflugur. En lagning Danice-strengsins er langt á veg komin.

Öflug alþjóðleg fyrirtæki hafa beðið í röðum eftir því að fá að byggja gagnaver á Íslandi. Ástæðan liggur í þeim miklu möguleikum sem fyrrgreindir ljósleiðarar gefa á slíkri starfsemi. Fjöldi menntaðra Íslendinga á þessu sviði er mikill. Hitastig landsins gerir það líka að verkum að mjög gott er að vera með gagnaver hér vegna þess að þá er auðvelt að kæla þann búnað sem þarf til þess að reka slíkt gagnaver. Þá er vatnsmagnið hér náttúrlega einstakt í heiminum en það þarf mikið vatnsmagn til að kæla þennan búnað. Því má segja að allar aðstæður á Íslandi séu mjög ákjósanlegar fyrir slík gagnaver.

Ég vil taka það fram að ég lagði fram fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra þar sem ég spurði um þann fjölda starfa sem einstaka atvinnustarfsemi gæfi af sér. Í svari hans kemur fram, með leyfi forseta:

„Gagnaver á Suðvesturlandi sem nýtti allt að 25 MW rafafl í byrjun gæti þurft 30–60 fasta starfsmenn. Af þeim mundi helmingurinn eða allt að tveir þriðju starfsmanna þurfa að hafa háskóla- og fagskólamenntun. Reiknað er með að jafnmörg störf skapist við alls kyns þjónustustörf utan veggja gagnaversins. Um 60–120 störf mundu því tengjast þessum rekstri beint og óbeint.“

60–120 störf beint og óbeint, með einu gagnaveri upp á 25 megavött. Við sjáum af þessu að þarna eru gríðarleg tækifæri. En það er nú ekki það eina, frú forseti, heldur er tiltölulega fljótlegt að taka ákvörðun um þetta og ráðast í byggingu gagnaversins. Þetta eru störfin sem yrðu eftir þegar búið væri að byggja gagnaverið.

Hins vegar þarf 150–200 manns til að byggja eitt svona gagnaver. Það tekur um það bil eitt og hálft ár. Það væri hægt að byrja á því mjög fljótlega. Í ljósi þess að nokkur fyrirtæki vilja koma hingað spyr ég hæstv. samgönguráðherra:

Hversu mikil er flutningsgeta ljósleiðarastrengjanna Farice annars vegar (Forseti hringir.) og Danice hins vegar og hversu mikið er búið að selja af flutningsgetunni nú þegar?