136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

ljósleiðarastrengirnir Farice og Danice.

314. mál
[14:54]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson spyr mig um ljósleiðaratengingar Farice og Danice. Spurningin er svohljóðandi:

„Hversu mikil er flutningsgeta ljósleiðarastrengjanna Farice annars vegar og Danice hins vegar og hversu mikið er búið að selja af flutningsgetunni nú þegar?“

Uppsett flutningsgeta Farice-1 strengsins eru 100 gígabæti á sekúndu. Mesta mögulega flutningsgeta strengsins eru 720 gígabæti á sekúndu. Af uppsettri flutningsgetu Farice eru um 80% seld eða samningsbundin.

Hvað varðar Danice-strenginn sem ákveðið var í tíð síðustu ríkisstjórnar að leggja og verið er að vinna við núna, þótt vinna hafi legið aðeins niðri í vetur út af veðrum, þá miða áætlanir við að í júní á þessu ári verði sett upp 100 gígabæti á sekúndu af þeim 5.120 sem strengurinn býður upp á í flutningsgetu. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafa samningar náðst um sölu á um 80% þeirrar flutningsgetu sem fyrirhugað er að setja upp í júní næstkomandi.

Virðulegi forseti. Þetta er svarið við þeirri spurningu sem hv. þingmaður setur fram. En ég get heils hugar tekið undir allt sem hann talaði um, þ.e. um öflugt fjarskiptanet og allt það. Það var auðvitað ástæðan fyrir því að strax í upphafi þessa kjörtímabils í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og eftir að ég kom í samgönguráðuneytið var unnið mjög hörðum höndum að því að koma því í gang að leggja hinn nýja streng sem hefur fengið nafnið Danice, frá Landeyjasandi til Danmerkur. Það var m.a. gert vegna þess að þau fjölmörgu netþjónabú sem voru í viðræðum við okkur á þeim tíma, sem m.a. hefur leitt til samnings við eitt þeirra, fyrirtækið Verne sem er búið að kaupa sér húseignir á Keflavíkurflugvelli og ætlar sér að byggja upp gagnaver þar, settu það sem skilyrði að við yrðum að vera með fullkomna hringtengingu, þ.e. Farice og Danice. Við gátum ekki treyst á gamla Cantat-strenginn sem var orðinn gamall og lúinn og flutti lítið.

Þetta var m.a. það sem lá á bak við lögnina á Danice. Það voru þau áform um gagnaver sem ég gat um áðan, hin græna stóriðja sem er að koma og sem var forsenda fyrir því að við fórum út í þessa framkvæmd með Danice. þ.e. samninginn sem gerður var við Verne. Hins vegar hefur ástand efnahagsmála í heiminum gert það að verkum að þeim áformum hefur verið seinkað örlítið. Það hefur svo sem komið ágætlega út fyrir Farice vegna þess að vegna slæmra veðra í vetur gekk erfiðlega að leggja og því seinkaði verkinu aðeins.

Virðulegi forseti. Ég hef bara gert að umtalsefni eitt gagnaverið sem þegar er í höfn. Ég get sagt að bæði hjá hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar og í samgönguráðuneytinu hjá okkur hefur verið mikil vinna og við höfum tekið á móti fjölmörgum aðilum sem hafa komið til fundar við okkur, kynnt áform sín og áhuga sinn á að byggja fleiri netþjónabú á Íslandi. Við höfum tekið þeim öllum vel og ég er mjög bjartsýnn á það að þegar fer að batna í efnahagslífi heimsins fari þetta aftur á fulla ferð.

Við þetta má bæta einu í viðbót sem er líka í umræðunni en það er að talað er nauðsyn á nýjum sæstreng frá Íslandi til Bandaríkjanna. Það eru ekki nema u.þ.b. tvær til þrjár vikur síðan mikill hópur fjárfesta var í samgönguráðuneytinu til að ræða um það verkefni, m.a. Þar er um að ræða hugmyndir sem falla vel að þeirri uppbyggingu sem við höfum verið með hér, þ.e. varðandi gagnaverin og að efla fjarskiptanetið bæði til Evrópu og til Bandaríkjanna og ég er mjög bjartsýnn á það, virðulegi forseti, að þegar efnahagsástandið skánar fari þetta aftur á fulla ferð.