136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

starfsemi vistunarmatsnefnda.

309. mál
[15:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um starfsemi vistunarmatsnefnda. Ég ræddi þetta við félagsmálaráðherra hér fyrir stuttu og fékk mjög góð og jákvæð svör frá henni. Ég skynja það svo að ekkert samráð sé milli vistunarmats ríkis og sveitarfélaga eða þeirra svæða sem vistunarmatsnefndir eru fyrir. Einnig langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort einstaklingur sem fær synjun á vistun þar sem úrræði hafa ekki verið fullreynd, hvort hann eigi þá rétt á einhverjum öðrum úrræðum.

Vandinn er sá að það virðist vera einhver brotalöm í kerfinu þar sem aldraður einstaklingur sem er kannski líkamlega ótrúlega heilbrigður en andlega mjög skertur eða öfugt fær ekki svör, eða fjölskylda einstaklingsins, þannig að þessi brotalöm virðist vera mjög slæm. Eftir því sem öldrunarlæknir segir mér stangast allt á í kerfinu vegna reglna um ríki og sveitarfélög. Einhvers staðar þar er brotalömin. Það er mjög mikilvægt — vegna þess að þetta er orðið það stórt vandamál um allt land, og það er jafnvel enn þann dag í dag verið að flytja fólk hreppaflutningum, liggur mér við að segja, til þess að koma því inn einhvers staðar í heilbrigðisgeiranum — að þetta verði ekki látið líðast lengur.

Ég ætla ekki að vera með langa tölu um þetta en ég vonast eftir skýrum svörum frá ráðherra og þá um það sem ég tel mjög mikilvægt, hvort ekki sé tímabært að þessi öldrunarmál öll sem slík fari undir félagsmálaráðuneytið úr heilbrigðisráðuneytinu. Ég veit að krafa er um að þau fari til sveitarfélaganna, sem væri mjög gott og jákvætt að mörgu leyti, en sveitarfélögin í dag eru ekki í stakk búin til þess að taka við þessum málaflokki. Þar af leiðandi held ég að það væri mjög gott ef ríkisstjórnin gæti fundið farsæla lausn á því að setja þetta yfir í félagsmálaráðuneytið. Ég vænti skýrra svara.