136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

starfsemi vistunarmatsnefnda.

309. mál
[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er brýnt að vekja máls á þessum málaflokki, hvernig honum er skipað og hvernig framkvæmd laganna er. Samkvæmt reglugerð sem sett var 1. janúar 2008 var kveðið á um að í hverju heilbrigðisumdæmi skuli starfa vistunarmatsnefnd og eru þær sjö talsins. En í 4. gr. þessarar reglugerðar um vistunarmat er kveðið á um að landlæknir skuli hafa með höndum framkvæmd þessa mats á landsvísu. Umsjónin felur í sér leiðbeiningar til nefndanna um upplýsingaöflun og gerð vistunarmats samkvæmt skilgreiningum þess en einnig fer landlæknir með faglegt eftirlit með störfum nefndanna og hefur umsjón með rekstri, viðhaldi og þróun rafrænnar vistunarskrár. Samkvæmt þessari grein skal halda reglulega samráðs- og fræðslufundi. Voru tveir slíkir fundir haldnir á síðasta ári með öllum vistunarmatsnefndunum sjö auk fulltrúa landlæknisembættisins og ráðuneytisins. Svarið við fyrri spurningunni er þetta: Það eru starfandi sjö vistunarmatsnefndir í landinu. Á þeim hvílir ekki lögboðin skylda um samráð sín í milli. Hins vegar segir í reglugerð að landlæknisembættið skuli hafa yfirumsjón með þessu mati og reyna að fylgja því eftir að þær viti hver af annarri. Það er sem sagt ekki lögbundin skylda um samráð en landlæknisembættið hefur þetta með höndum.

Síðan er spurt um réttindin sem fólk hafi um forgang í kerfinu og þá einnig um eftirfylgni með úrræðum sem kveðið er á um í reglugerðinni og tilgreind eru í 10. gr. hennar. Þessu er til að svara að þessi reglugerð byggist á þeirri stefnumótun að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst. Þessi stefnumótun felur í sér að fólk hafi fengið viðeigandi greiningu, meðferð og endurhæfingu en einnig að það hafi reynt hvers konar stuðning annan sem til þess er fallinn, svo sem heimaþjónustu og heimahjúkrun, dagvistun, skammtímainnlagnir og annað það sem við getur átt. Það er verkefni vistunarmatsnefndanna að skoða hvert mál fyrir sig með hliðsjón af þessum sjónarmiðum.

Viðkomandi nefnd tekur fyrst og síðast afstöðu til þess hvort viðkomandi einstaklingur sé í varanlegri þörf fyrir hjúkrunarrými. Vistunarmatsnefnd höfuðborgarsvæðisins leggur sig fram um að benda á þá þætti sem komið gætu umsækjendum til góða ef varanleg vistun í hjúkrunarrými á ekki við. Þannig getur fólki verið vísað á að leita eftir endurhæfingu eða greiningarvinnu eða sérstökum stuðningi, svo sem dagvistun. Þá er fólki einnig bent á bæði heilsugæslu og félagsþjónustu til að fylgja slíkum hugmyndum eftir og afrit send til þeirra aðila sem voru upplýsingagjafar í viðkomandi máli.

Það er þessara aðila í samfélagsþjónustu að styðja umsækjandann til áframhaldandi búsetu heima eins lengi og unnt er. Þeir umsækjendur sem fá synjun eiga ekki formlegan rétt á forgangi að slíkri þjónustu, hver sem hún er, umfram aðra. Þetta er kjarninn í svari við spurningu hv. þingmanns. Það eru þeir aðilar sem formlega sjá um viðkomandi þjónustu sem forgangsraða eftir þeim upplýsingum sem þeim berast um bráðleika hvers máls um sig.

Svarið er að samkvæmt þeim upplýsingum sem hér eru reiddar fram af sérfræðingum heilbrigðisráðuneytisins kemur fram hverjar eru megináherslurnar. Það veiti ekki viðkomandi einstaklingi forgang að hafa gengið í gegnum þetta mat heldur er skoðað hversu brýn þörfin er fyrir hvern og einn.