136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

starfsemi vistunarmatsnefnda.

309. mál
[15:13]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka aðeins til máls undir þessari umræðu og benda á að þær breytingar sem gerðar voru á vistunarmati, sennilega haustið 2006 eða vorið 2007, hafa verið til verulegra bóta í þjónustunni. Ég tala nú ekki um þegar reglugerð um vistunarmat tók gildi í byrjun síðasta árs sem breytti algjörlega forgangsröðun í vistun á öldrunarstofnunum í þá veru að í stað þess að öldrunarstofnanir gætu valið um tugi manna til að fara inn var fólk sett á forgangslista. Það þýddi að t.d. á Landspítalanum hafa biðlistar fyrir aldraða inn á öldrunarheimili algjörlega dottið niður, gangainnlagnir hafa algjörlega dottið niður. Þetta var því til mikilla bóta.

En mér þætti fróðlegt að heyra svar frá hæstv. heilbrigðisráðherra við spurningu hv. þingmanns í þá veru hvort hann hafi hug á að færa heilbrigðisþjónustu við aldraða á öldrunarstofnunum undir félagsmálaráðuneytið og láta þannig (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu við aldraða falla undir önnur viðmið en við aðra aldurshópa.