136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

starfsemi vistunarmatsnefnda.

309. mál
[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir þetta mál en ég held að við getum verið sammála um það að sú reglugerð, sem var sett 1. janúar 2008, var afskaplega mikið gæfuspor og til bóta. Hugmyndin var alveg hrein og klár, að samræma vistunarmatið á milli landshluta, þannig að menn verði að fara eftir sömu reglum og sömu viðmiðunum. Þetta ásamt því að menn náðu samningum við Grund eftir útboð á Landspítalanum, aukinn fjöldi hvíldarrýma, fyrst á Barónsstíg og núna á Hrafnistu, og sömuleiðis aukin áhersla á heimahjúkrun hefur gert það að verkum að við höfum náð afskaplega góðum árangri hvað þessa hluti varðar. Við sjáum það t.d. núna á Landspítalanum að svokallaðar gangainnlagnir eru að mestu leyti horfnar. Það fólk sem beið á spítalanum eftir þjónustu, eftir að vera í rauninni útskrifað, þarf ekki að bíða þar lengur. Ég hvet hæstv. ráðherra, ef hann hefur hug á að breyta þessum hlutum, að fara varlega í það.