136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

sýklalyfjanotkun.

310. mál
[15:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrigðisráðherra snýr að því hvernig heilbrigðisyfirvöld hafi hugsað sér að bregðast við upplýsingum um að sýklalyfjanotkun hér á landi sé allt að 40% meiri en annars staðar á Norðurlöndunum. Jafnframt spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra um afleiðingar þessarar miklu lyfjanotkunar á heilsufar landsmanna sem er aukið sýklalyfjaónæmi.

Ég er þeirrar skoðunar að stefnumótun í heilbrigðisþjónustu eigi að taka mið af rannsóknum í heilbrigðisvísindum og ekki síst í þeim tilvikum þar sem rannsóknir benda á vankanta í skipulagsþjónustu og benda á leiðir til bætts heilbrigðis og ekki síst ef breytt vinnulag leiðir til betri nýtingar opinbers fjármagns og það á við í þessu tilviki sem mín fyrirspurn snýr að. Tilefni hennar eru skrif dr. Vilhjálms Ara Arasonar heilsugæslulæknis sem hefur með rannsóknum sínum athugað tengsl sýklalyfjanotkunar og lyfjaónæmis hér á landi og unnið ötullega að því að kynna niðurstöður sínar. Niðurstöður hans benda til þess að í allt of mörgum tilvikum sé verið að meðhöndla sýkingar með lyfjum að óþörfu þar sem vitað er að þau virka ekki. Langtímaafleiðingar af slíkri ofnotkun eru vaxandi sýklalyfjaónæmi sem þýðir að bakteríur verða ónæmar fyrir lækningaáhrifum lyfsins í sumum tilfellum til verulegs tjóns. Það mun færa okkur marga áratugi aftur í tímann ef það ástand verður útbreitt, hvort heldur hér á landi eða erlendis.

Vilhjálmur bendir á að allt að 80% af allri sýklalyfjanotkun í þjóðfélaginu séu vegna notkunar þeirra utan sjúkrahúsa og þar af er meiri hluti vegna öndunarfærasýkinga þar sem meðferð með sýklalyfjum er oftast óþörf. Sýklalyfjanotkun hér á landi er um 40% meiri en á öðrum Norðurlöndum eins og ég hef getið um hér á undan. Hún fer vaxandi sem samsvarar 16% aukningu á milli áranna 2003 og 2007. Þannig hefur t.d. sýklalyfjanotkun aukist um 35% hjá börnum undir 5 ára aldri á síðustu 10 árum. Jafnframt er sýnt fram á að mikill munur er á sýklalyfjanotkun milli landshluta. Hún er t.d. helmingi minni á Akureyri en í Reykjavík og er mjög athyglisvert að sjá það. Hún getur verið þrefalt minni í einum landshluta en í öðrum. Á sama tíma hefur verið dregið verulega úr sýklalyfjanotkun í nágrannalöndum okkar. Sýklalyfjakostnaðurinn er mikill í þjóðfélaginu og hann skipar 5. sætið í heildarkostnaði vegna lyfjamála þannig að það er töluvert tilvinnandi til að ná þessum báðum markmiðum, að bæta heilsu og minnka kostnað.

Mikil notkun sýklalyfja hefur þannig í för með sér óþarfa kostnað fyrir samfélagið og getur þar að auki valdið miklum heilsufarslegum skaða fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Það á ekki síst við um börn en svo virðist sem mikill þrýstingur sé á að lækna jafnvel smávægilega sýkingu hjá þeim með sýklalyfjum með alvarlegum hliðarverkunum eins og ég benti á. Stjórnvöld geta beitt sér fyrir því að snúa þessari þróun við og náð árangri. Til þess hafa m.a. rannsóknir dr. Vilhjálms Ara Arasonar bent.

Ég mun í seinni ræðu minni ræða frekar hvaða aðferðum hægt er að beita en ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra.