136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

sýklalyfjanotkun.

310. mál
[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Svör mín byggjast á upplýsingum sem heilbrigðisráðuneytið og sérfræðingar þar hafa reitt fram. Margt athyglisvert kom fram í máli hv. þingmanns eins og um mismikla notkun á sýklalyfjum eftir landshlutum. En það er rétt sem fram kemur í spurningunni að sýklalyfjanotkun er allt að 40% meiri hér á landi en gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Heildarsala sýklalyfja hér á landi hefur stöðugt verið í nákvæmri skoðun og vel er fylgst með sölu þessara lyfja. Á árunum 1990–2000 var um að ræða 14% minnkun í heildarsölu sýklalyfja hér á landi en hún jókst um um það bil 13% á árunum 2000–2005 og hélst óbreytt fram til ársins 2007 en á milli áranna 2007 og 2008 minnkaði hún um 5%. Hvað varðar samanburð á milli Norðurlandanna var heildarsala sýklalyfja árið 2006 um 10–40% hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum — þannig að 40% virðast vera í efri kantinum þarna — en á árinu 2007 var þessi munur heldur minni, eða frá 8–30% hér á landi. Þetta fer eftir því við hvert Norðurlandanna við miðum okkur. Þannig hefur sala sýklalyfja farið vaxandi á Norðurlöndunum almennt en Ísland og Svíþjóð verið undantekning, og eins og fram kom í þeim tölum sem ég vísaði til þá hefur hún heldur verið að dragast saman hér eða staðið í stað á síðustu árum.

Öllum er ljóst að notkun þessara mikilvægu lyfja leiddi til byltingar á sínum tíma þegar þau komu fram. Hins vegar lærðist mönnum fljótt að ofnotkun þeirra gat leitt af sér ónæmi sýklanna sem sáu við lyfjunum og mynduðu þol. Þetta hefur leitt af sér að margar bakteríur eru nú orðnar vel þolnar gagnvart sýklalyfjum þannig að um færri lyf er þá að velja fyrir einstaklinginn. Nú er svo komið að til eru bakteríustofnar sem engin sýklalyf duga við og má í því sambandi t.d. nefna suma stofna berklabakteríunnar. Skynsamleg notkun er því mjög nauðsynleg. Að mati sérfræðinga heilbrigðisráðuneytisins er fræðsla og þekking lykillinn að því að rétt sé staðið að málum, og tek ég hjartanlega undir það sjónarmið.

Í öðru lagi spyr hv. þm. Ásta Möller hvernig heilbrigðisyfirvöld hyggist bregðast við afleiðingum þessarar miklu sýklalyfjanotkunar. Því er til að svara að eins og áður er getið getur notkun sýklalyfja leitt til alvarlegs lyfjaónæmis en hafa ber í huga að fleira hefur áhrif á útbreiðslu slíks ónæmis en notkun sýklalyfjanna einna og sér. Þau eru engu að síður afar mikilvæg við meðferð smitsjúkdóma og skynsamleg notkun því mjög nauðsynleg. Öll fræðsla, upplýsingar og hvatning um skynsamlega notkun sýklalyfja til lækna og annarra er nauðsynleg en forðast skyldi að beita hræðsluáróðri.

Hér á landi er það hlutverk sóttvarnalæknis að fylgjast með notkun sýklalyfjaónæmis. Sýklalyfjagrunnur er nýlega kominn í gagnið og gefur hann áreiðanlegar upplýsingar um lyfjaávísanir á sýklalyf og auknar upplýsingar um heildarnotkun sýklalyfja. Einnig er fylgst með notkun sýklalyfja á stofnunum. Til ráðgjafar um þessi mál hafa heilbrigðisyfirvöld nefnd um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi en hlutverk nefndarinnar er að vakta ónæmi fyrir sýklalyfjum, m.a. sýkla í mönnum, dýrum og umhverfi, og er hún til ráðgjafar um aðgerðir til að hindra myndun ónæmis.

Fljótlega er von á ítarlegri skýrslu um sölu og ávísanir á sýklalyf fyrir árin 2007 og 2008 og mun nefndin fara vel yfir þær niðurstöður. En eins og fram kemur í þessum upplýsingum, sem komnar eru frá sérfræðingum heilbrigðisráðuneytisins, er vel fylgst með þessum málum og von á ítarlegri skýrslu von bráðar.