136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

sýklalyfjanotkun.

310. mál
[15:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ágætu svör. Þó hefði ég kannski kosið að hann væri ögn róttækari í þeim ráðstöfunum sem hann mundi vilja láta stjórnvöld grípa til. Stjórnvöld hafa raunverulega yfir að ráða ýmsum tækjum í þessum efnum.

Það kom fram í rannsókn dr. Vilhjálms Ara Arasonar að með vitundarvakningu sem beinist m.a. að foreldrum barna er hægt að stýra í meira mæli óskum þeirra um hvort börn þeirra eigi að fara á sýklalyf eða ekki. Foreldrarnir eru lykilaðilar þar og það eru einmitt mjög oft óskir þeirra sem verða til þess að læknar ávísa sýklalyfjum. Það er vettvangur sem hægt er að snúa sér að.

Það er líka hægt að hafa áhrif á ávísanavenjur lækna og veita þeim upplýsingar, m.a. í gegnum lyfjagagnagrunninn sem er gott tæki og núna komið í fulla starfsemi. Hann gefur læknum ákveðnar upplýsingar um það hvernig þeir ávísa lyfjum, þar á meðal sýklalyfjum. Síðan hefur landlæknir gefið út klínískar leiðbeiningar um meðferð við miðeyrnabólgum, hann gerði það núna í desember. Það er mjög gagnlegt að hafa þær leiðbeiningar til hliðsjónar en það þarf að ganga eftir því að þeim sé fylgt. Við þurfum að höfða þarna til bæði ábyrgðar foreldra og einstaklinga og ekki síður til ábyrgðar lækna í þessum efnum. Við megum ekki gleyma því að þótt ríkið beri ákveðinn kostnað af sýklalyfjum kemur stærsti hlutinn af kostnaði úr buddu einstaklinganna.

Síðan er það atriðið sem hv. þm. Þuríður Backman benti á, það er hægt að skapa aðstæður á heilsugæslustöðvum sem leyfa ákveðið vinnulag sem gerir það að verkum að hægt er að upplýsa fólk mun betur. Þá er ég ekki síst að horfa til þess að auka samstarf lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum til þess að veita upplýsingar.

Síðast en ekki síst langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um afstöðu hans til lyfjakynningar til heilbrigðisstarfsmanna. Telur hann ástæðu til að takmarka þær í einhverjum mæli? Lyfjakynningar hafa (Forseti hringir.) að mati margra hvetjandi (Forseti hringir.) áhrif til aukinnar notkunar á lyfjum.