136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

sýklalyfjanotkun.

310. mál
[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það eigi við um lyfjakynningar eins og margt annað, spurningin snýst um vitundarvakningu kannski frekar en beina löggjöf. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Ástu Möller og máli hv. þm. Þuríðar Backman, þetta snýst að verulegu leyti um að efla vitund samfélagsins um hvað hér er á ferðinni, bæði foreldra og lækna.

Í þessu sambandi má geta þess að það er náið samstarf á milli heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins um skynsamlega notkun sýklalyfja og baráttu við að halda sýklalyfjaónæmi í skefjum. Sú stofnun hefur ákveðið að helga þessari baráttu sérstakan dag á ári hverju og var fyrsti slíki dagurinn haldinn 17. nóvember sl. Þá stóð sóttvarnalæknir fyrir fræðsluaðgerðum, m.a. í fjölmiðlum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur einnig látið lyfjaónæmi sig miklu varða og fylgjast heilbrigðisyfirvöld hér á landi vel með upplýsingum og ráðleggingum sem þaðan berast.

Mér sýnist vera mikil vitund um þetta mál hjá heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi. (ÁMöl: Ekki nóg.) Ekki nóg, segir hv. þingmaður. Það má vel vera að svo sé. Menn hafa sett upp gagnagrunn, sýklalyfjagrunn, og það er verið að efla vitund þjóðarinnar, læknanna og foreldranna um mikilvægi þess að horfa gagnrýnið á þessi mál og það er vel.