136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:45]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Staða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur lengi verið erfið og sýnt hefur verið fram á að ekki hafi verið rétt gefið við reiknilíkön heilbrigðisstofnana. Fjárveitingar hafa ekki verið í nokkru samræmi við íbúafjölda. Í sumar lofaði hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra leiðréttingu og allir fóru glaðir af þeim fundi, en það var svikið. Fyrri ríkisstjórnir hafa vanrækt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og stuðningur Reykjanesbæjar, meiri hluti sjálfstæðismanna, hefur því miður verið í skötulíki við stofnunina. Það má allt að því ætla að svelta hafi átt þessa heilbrigðisstofnun til einkavæðingar.

Nú heyri ég að Reykjanesbær, meiri hluti sjálfstæðismanna, hafi uppi fyrirætlanir um heilbrigðisstofnunina, þ.e. um einkavæðingu skurðstofunnar. Ég spyr hv. þm. Björk Guðjónsdóttur: Hverjar eru fyrirætlanir Reykjanesbæjar í þessum efnum? Hvað hyggjast þeir fyrir? Hvað vokir bak við þar? Hvernig stendur á þessu stuðningsleysi meiri hluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ við heilbrigðisstofnunina?