136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:49]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þetta og ég fagna fyrirspurn hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur.

Ég vil aðeins koma því að að á Sjúkrahúsinu á Akranesi er rekin mjög góð skurðstofa sem hefur nýst Norðvesturlandi mjög vel, Snæfellsnesi alveg vestur í Dali, Vestfjörðum, Norðurlandi og Húnavatnssýslu. Þar hefur farið fram mjög góð vinna. Fólk af Stór-Reykjavíkursvæðinu og Mosfellsbæ hefur komið og lagst inn á sjúkrahúsið, farið þar í liðskiptaaðgerðir, æðahnútaaðgerðir og ýmiss konar aðgerðir sem hinir færustu læknar og sérfræðingar sem starfa við Sjúkrahúsið á Akranesi framkvæma, og það er mjög ánægjulegt. Ég styð það heils hugar að skurðstofur verði nýttar sem best á Suðurnesjum því ekki veitir af að nýta þau góðu sjúkrahús sem við eigum um landið og þá sérstaklega til að létta undir með Landspítala.