136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Auðvitað fagna ég því að eitthvað er að gerast í þessum málum og hann hafi skipað nefnd, sem ég held að sé mjög gott, til að fara yfir þessi mál. Ég tel það alveg nauðsynlegt og ekki gott að láta fullkomnar og nýjar skurðstofur standa lengi ónotaðar.

Ég vildi með fyrirspurn minni fyrst og fremst vekja athygli á að á Suðurnesjum eru tvær nýjar og fullkomnar skurðstofur sem standa nánast ónotaðar eins og fram hefur komið. Í því geta falist fjölmörg tækifæri ef þeir sem eru við stjórnvölinn eru opnir fyrir slíku. Tækifærin gætu t.d. verið þau að létta á skurðstofum Landspítala með einhvers konar samvinnu á milli þessara stofnana um að nýta skurðstofurnar og sjúkrahúsið fyrir aðgerðir sem þarf ekki að framkvæma á hátæknisjúkrahúsi. Ein af þeim hugmyndum sem unnið var með í tíð fyrrverandi heilbrigðisráðherra var að skurðteymi frá Landspítala störfuðu nokkra daga vikunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, nýttu þannig fullkomnar skurðstofur og léttu á skurðstofum Landspítalans. Ég vil jafnframt segja að tækifæri gætu einnig verið í einkarekstri. Ég tel að skynsamlegt væri að skoða allar leiðir í þessum efnum ef það leiðir til þess að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu þar sem atvinnuleysi er mjög mikið.

Ég vil að lokum fullvissa hv. þm. Atla Gíslason um að stuðningur meiri hluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar við starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur alla tíð verið mjög mikill. Fyrirætlanir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um einkarekstur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru með þeim hætti að það þarf að gera allt þarna upp í samráði við ríkið sem rekur þessa stofnun.