136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Icesave-nefndin.

[10:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 5. desember 2008, í umræðu um samninga um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna á útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu, sagði hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, með leyfi frú forseta:

„Það er alveg hárrétt hjá formanni utanríkismálanefndar að hér er farið fram á pólitískan stuðning við uppgjöfina í Icesave-deilunni.“ Síðan segir hæstv. ráðherra: „Ég vil hins vegar hér fyrir hönd okkar þingmanna Vinstri grænna lýsa því yfir að við lítum á þetta sem riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning og áskiljum okkur allan rétt í framhaldinu hvað það varðar.“

Nú hefur hæstv. ráðherra skipað samninganefnd og hún fær væntanlega það verkefni að rifta þessum samningum. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki alveg á tæru að svo verði og ég vil ekki heyra 10 ára sögu um þátttöku Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Ég vil líta á stöðuna eins og hún er núna, þjóðin lítur á stöðuna eins og hún er núna og vill fá úrræði núna.

Hæstv. ráðherra hefur einnig skipað formann nefndarinnar pólitíkus, fyrrverandi ráðherra og á sama tíma er verið að gagnrýna að pólitíkus sé í öðru starfi. Ég hefði talið að í þessa nefnd ættu að fara mestu mannvitsbrekkur íslensku þjóðarinnar, endurskoðendur þrælvanir tölum og slíku, og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi haft það að leiðarljósi.