136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Icesave-nefndin.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það hljóti allir að eiga sér eitt markmið í þessu máli og það er að gæta hagsmuna íslenska þjóðarbúsins sem best. Ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um það og hv. þingmaður deilir með mér og væntanlega öllum hér inni áhyggjum af því að byrðarnar af þessu ólánsmáli gætu orðið okkur mjög þungbærar og erfiðar. Hendur okkar sem tókum við völdum í landinu 1. febrúar sl. eru ákaflega bundnar af því hvernig fráfarandi ríkisstjórn skildi við þetta mál, ítem að við erum með samþykkt Alþingis til að vinna eftir, þessa sama þings sem enn situr sem samþykkti þingsályktunartillögu. Það gerðu ekki allir, það studdu hana ekki allir, sennilega ekki hv. þingmaður ef ég man rétt. Þingsályktunartillagan setti málið í farveg og meðan Alþingi hefur ekki breytt afstöðu sinni hljótum við að vinna með hliðsjón af því. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná einhverri niðurstöðu í þetta mál, niðurstöðu sem við getum búið við og að ekki verði út úr þessu skuldbindingar eða greiðslubyrði (Forseti hringir.) sem verði okkur algerlega ofviða. Að sjálfsögðu stendur ekki til að skrifa undir eða standa að neinu slíku.