136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

staða námsmanna.

[10:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör jafnframt sem ég hvet hana til að vinna hratt að þessum málum. Það er lítill tími til stefnu og við þurfum líka í þessu samhengi að hugsa um það hvernig námsmenn eiga að geta framfleytt sjálfum sér. Námsmenn hér á landi hafa hingað til unnið mikið með námi sínu og þar af leiðandi getað staðið allsæmilega undir sinni framfærslu. Nú er ljóst að sú atvinna er ekki lengur í boði sem íslenskir námsmenn hafa getað sótt í — hvernig sér hæstv. ráðherra stöðuna næsta sumar? Eiga námsmenn að framfleyta sér á tímabundnum atvinnuleysisbótum eða ætlum við að auka námsframboðið innan háskólanna, jafnvel framhaldsskólanna, þannig að við eyðum ekki og sóum dýrmætum tíma hjá þessum 40.000 einstaklingum sem ég ræði hér um? (Gripið fram í: Senda þá …)

Ég tel mjög brýnt að hæstv. ráðherra haldi þinginu upplýstu um þessa stöðu því að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta snertir ekki einungis þá 40.000 námsmenn sem eru að (Forseti hringir.) ljúka námi í sumar heldur fjölskyldur þeirra og þar af leiðandi alla þjóðina.