136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

sala Morgunblaðsins.

[10:51]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Auðvitað getur ráðherrann ekki skipt sér af hverju einstöku máli þar sem banki þarf að gera upp fyrirtæki, en það eru gríðarlega mörg viðfangsefni sem bankarnir standa frammi fyrir, eins og t.d. banki sem situr uppi með útgerð sem er með allt niður um sig, kannski vegna þess að hún keypti hlutabréf í banka sem fór á hausinn en var ekki að sinna útgerð o.s.frv. Bankinn þarf að svara því hvernig vinna eigi úr slíkum málum. Þetta mál vekur hins vegar sérstaka athygli vegna þess að talað er um fjölmiðla sem fjórða valdið í landinu. Þegar fjórða valdið — Morgunblaðið er hluti af því — fer svona algjörlega í hendur lítils hagsmunahóps og talsmanns ákveðins, hvað eigum við að segja, atvinnuvegar hlýtur að vakna upp sú spurning hvort þetta sé eðlilegt. Sú spurning hlýtur líka að vakna upp hvort við þyrftum ekki (Forseti hringir.) að dusta rykið af fjölmiðlalögunum og bæta þau og koma með fjölmiðlalög (Forseti hringir.) sem hægt er að sætta sig við.