136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

sala Morgunblaðsins.

[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, bankarnir eru með mörg og afar vandasöm verkefni í sínum höndum í þeim tilvikum sem mikilvæg fyrirtæki hafa komist í þá erfiðleika að bankarnir eru í raun og veru komnir með þau í gjörgæslu eða í sínar hendur. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að þar sé þá faglega og vel að endurskipulagningu slíkra fyrirtækja staðið, endurfjármögnun eða sölu þeirra. Ég held að við verðum bara að treysta því og vona að svo sé gert. Það er líka mikilvægt að slík ferli séu sem gagnsæjust, veittar séu hlutlægar upplýsingar bæði um hvernig er unnið og á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar. Í þeim tilvikum að bankarnir leysa úr þessum málum sjálfir eru þau alfarið hjá þeim og það væri þá ekki nema horfið væri að því ráði, sem reyndar er í skoðun og undirbúningi, að einhver slík tilvik færðust yfir í hendur eignaumsýslufélags sem meðferð þeirra yrði önnur.

Um aðra þætti mála sem lúta að fjölmiðlalöggjöf eða samkeppnismálum og hættunni á hringamyndun og öðru slíku má að sjálfsögðu margt ræða og ég geri ekki lítið úr því að það er þörf á því að (Forseti hringir.) endurskoða allt það umhverfi eins og hlutirnir hafa gengið fyrir sig á Íslandi.