136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

stjórn bankakerfisins.

[10:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig rétt ef túlka má ræðu hv. þingmanns sem sjálfsgagnrýni að það er risavaxið verkefni að greiða úr þeim viðskilnaði sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig. Það er hverju orði sannara. Það lýtur að mörgu í efnahagslífi okkar, fjármálakerfi og þjóðarbúskap. Það er hins vegar mikill misskilningur hjá hv. þingmanni að þessi ríkisstjórn sé eingöngu að grípa til bráðabirgðaráðstafana og það er enn meiri misskilningur ef hann heldur að þessi ríkisstjórn sé ekki að gera neitt. Þar held ég að hv. þingmaður hitti sjálfan sig og sinn eigin flokk fyrir. Ætli það sé ekki frekar þannig að lítið hafi orðið úr tímanum frá októberbyrjun og til loka janúar ef það er borið saman við þá 25 daga sem þessi ríkisstjórn hefur haft til starfa og er búin að koma miklu í verk og vinnur hörðum höndum að margvíslegu endurreisnarstarfi.

Af því að hv. þingmaður nefndi sparisjóðina get ég upplýst að ég átti fundi með tveimur stærstu sparisjóðunum í gær. Þeirra mál eru í skoðun, að sjálfsögðu. Okkur er öllum ljóst hversu mikilvægt er að reyna að verjast því að frekari áföll verði og fleiri fjármálastofnanir komist í þrot. Það er búið að grípa til ýmissa björgunaraðgerða, t.d. í samstarfi fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, sem hafa tryggt að bankar og fjármálastofnanir eru starfandi í dag en væru það ekki ef menn hefðu ekki haft kjark til að taka stórar ákvarðanir, í sumum tilvikum milljarðaákvarðanir, til að tryggja að ekki færi á versta veg.

Það er fráleitt tal og hv. þingmanni ekki samboðið að tala um að bankarnir séu stjórnlausir, það er algjör lítilsvirðing við það góða fólk sem þar vinnur núna hörðum höndum við ákaflega erfiðar aðstæður við að reyna að gera allt í senn, koma skipulagi nýju bankanna í form, koma þar saman ársreikningum og standa í stanslausum aðgerðum til að reyna að aðstoða fyrirtæki og heimili í þeim erfiðleikum sem viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) skilur eftir.