136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Sementsverksmiðjan á Akranesi.

[11:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er gott og blessað að huga að nýjum fyrirtækjum og nýjum iðnaði. En menn mega ekki horfa fram hjá því sem fyrir er og standa vörð um það, þess vegna vek ég sérstaka athygli á þessu.

Við höfum hér áður, þingmenn Vinstri grænna, vakið athygli á útflutningi á óunnum gámafiski sem jafnvel gæti skapað nokkur hundruð eða þúsund störf ef hann væri unninn hér á landi, ef honum væri landað hér. Sama gildir um það sem ég var hér að nefna.

Ég legg áherslu á að við verðum að huga að þeim atvinnugreinum, þeim fyrirtækjum, þeim iðnaði, þeim störfum sem eru nú þegar fyrir í landinu. Það getur kreppt að þeim. Það getur kreppt að í byggingariðnaðinum og gerir það. Þá getur fólk líka hugað að því hvað sú kreppa getur haft í för með sér.

Okkur ber ekki aðeins að horfa til nýrra stórra verkefna, sem sum eru (Forseti hringir.) kannski ekki raunsæ, heldur ber okkur líka að standa vörð um þau störf sem fyrir eru og skipta miklu máli. Hundruð og þúsund (Forseti hringir.) störf eru líka í húfi þar, frú forseti. (Gripið fram í.)