136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið við þessari spurningu er einfalt. Breytingartillagan felur ekki í sér að það verði viðvarandi eða framtíðarfyrirkomulag að Alþingi komi að þessari skipun. Tillagan gerir eingöngu ráð fyrir að þetta gildi í þetta eina sinn þegar skipa þarf alla helstu stjórnendur bankans í fyrsta sinn. Sami forsætisráðherrann hefur allt það vald í höndum sér. Ef við stæðum í þeim sporum að skipa þyrfti alla hæstaréttardómara á sama tíma mundi ég hafa efasemdir um að sami ráðherrann gerði það. Ég teldi að við þær aðstæður gætu verið fullkomlega málefnaleg rök fyrir því að leita eftir samþykki Alþingis í þeim efnum.

Varðandi málið að öðru leyti þá gat hv. þingmaður þess að frá sínum bæjardyrum séð hefði þetta alltaf verið einfalt mál sem snerist um frekar fá atriði. Það er rétt, þetta er ekki ítarlegt frumvarp. Þetta eru ef ég man rétt 12, 13 greinar eða eitthvað svoleiðis. Nú er það svo að meiri hlutinn hefur staðið að breytingartillögum sem ég held að séu við 13 eða 14 atriði í frumvarpinu, þannig að frumvarpið er auðvitað verulega breytt frá því sem var þegar það var lagt hér fram sem drög af hálfu hæstv. forsætisráðherra, eiginlega voru það drög. Raunar er frumvarpið algerlega óþekkjanlegt í dag frá því sem það var þegar það kom frá hæstv. forsætisráðherra. Að því slepptu finnst mér rétt að geta þess, bara af því að hv. þingmaður vísaði til þess einmitt í framhaldi af þessu, að þær breytingartillögur sem við studdum vissulega við 2. umr. voru til þess fallnar að bæta frumvarpið og ég tel að það sé að mörgu leyti í betra horfi í dag en það var þegar það var lagt fram. Þess vegna studdum við þær breytingartillögur sem komu fram. Við vörum hins vegar (Forseti hringir.) við þeim snúningi sem verið er að taka á málinu á lokastigi og teljum að það (Forseti hringir.) sé för sem ekki hefði átt að fara.