136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:09]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram sem mín skoðun að ég tel það ekki sambærilegt að skipa forstjóra eða forstöðumenn í undirstofnun framkvæmdarvaldsins og dómara við Hæstarétt Íslands, þ.e. æðsta dómsvaldið í landinu, lykilstofnun í þrígreiningu ríkisvaldsins að því er varðar dómsvaldið. Ég tel það ekki samanburðarhæft og því kom sú tillaga mér á óvart, að í þessu tilviki væri ástæða til þess að Alþingi staðfesti skipun en ekki þegar kemur að Hæstarétti sem er náttúrlega miklu stærra og viðameira mál að mínu mati.

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann að því af því hann hafði miklar áhyggjur af valdi forsætisráðherra við skipun seðlabankastjóra. Hv. þingmaður leiðréttir mig þá en hvernig hefur skipulagið verið? Hver hefur skipað seðlabankastjóra í gegnum tíðina? Hver skipaði síðasta seðlabankastjóra? Var það ekki forsætisráðherra? (ÁI: Var það auglýst?) Var starfið auglýst? Gengur tillagan út á að gagnrýna þau vinnubrögð og þær reglur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið eftir undanfarin 18 ár? Er verið að tala um það? Af hverju þarf að breyta reglunum núna þegar nýr forsætisráðherra er tekinn við stjórn en þess þurfti ekki undanfarin 18 ár?

Mér finnst ekkert ósanngjarnt og ekkert óeðlilegt við að kalla eftir skýringum á því af hverju þetta er svona ofboðslega mikið vald núna að kalla þarf eftir atbeina þingsins þar sem verið er að breyta fyrirkomulagi eða leggja til breytingar á fyrirkomulagi sem hv. þingmaður hefur stutt í langan tíma.

Ég sagði í ræðu minni áðan að hv. þingmaður hefði mestan part verið samkvæmur sjálfum sér í þessari orðræðu en í þessum tillöguflutningi rekst hvað á annars horn. Ég hefði gaman af að heyra hv. þingmann útskýra það hvers vegna þurfi skyndilega að gera þessar breytingar núna þegar (Forseti hringir.) nýr forsætisráðherra er kominn í Stjórnarráðið.