136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður benti mér á að hér væri minnihlutastjórn. Það er kannski ágætt að það komi fram í umræðunni að ég hef talið, og skynjað af umræðunni síðustu vikur, að kannski átti fólk sig almennt ekki á því að hér er einmitt minnihlutastjórn. Minnihlutastjórn á að vera þannig að hún hafi ekki meiri hluta í þinginu til að gera það sem hana lystir eða beita ofbeldi til þess, eins og síðasta ríkisstjórn var mjög gjörn á að gera. Hér voru keyrð í gegn sjö frumvörp í kjölfar bankahrunsins án þess að leita umsagna eða athugasemda en hér hefur þó a.m.k. verið beðið í þrjár vikur með að fara í gegn með þetta frumvarp.

Ég er bara algerlega ósammála hv. þingmanni og tel útúrsnúning af hans hálfu að segja að minnsta rask muni valda því að peningastefnunefnd eigi að gefa út þessa aðvörun. Hér stendur:

„Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu …“

Þá erum við ekki að tala um að hún eigi að meta hvert einstaka tilvik eða þá hvort einhver einstakur banki standi hallari fæti en einhver annar.

Ef þetta ákvæði hefði þegar verið í lögum hefðum við ekki kannski getað sparað hundruð milljarða (PHB: Nei.) sem munu leggjast á börnin okkar í framtíðinni. Hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri hérna, að við þyrftum að borga Icesave-reikningana?

Hingað hafa komið menn sem hafa gegnt lykilstöðum í þjóðfélaginu og sagt: Við vissum þetta allt. Við sáum þetta allt fyrir. Sá hv. þingmaður þetta kannski fyrir (Forseti hringir.) en ákvað að segja ekki neitt? Það er bara verið að koma í veg fyrir að svona vitleysa komi fyrir aftur. Það er þessi nefnd sem leggur til að þetta verði sett inn í löggjöf (Forseti hringir.) Evrópusambandsins.