136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:31]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst nokkuð óviðurkvæmilegt að hér skuli ekki vera viðstaddur einn einasti ráðherra og ekki formaður viðskiptanefndar þegar verið er að fjalla um þetta mál. Ég mælist til þess að hæstv. forseti hlutist til um það að formaður viðskiptanefndar komi í salinn áður en ég held áfram máli mínu og klukkan verði stöðvuð á meðan.

(Forseti (GuðbH): Forseti hefur gert ráðstafanir til að kalla formann viðskiptanefndar í þingsalinn.) (Gripið fram í.)

Ég sé ekki ástæðu til að fara fram (Gripið fram í.) á það, sérstaklega þar sem hinn vaski formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, er nú kominn í salinn. En við ræðum hér við 3. umr. um það frumvarp sem liggur fyrir um Seðlabanka Íslands og þær breytingartillögur sem komu fram við meðferð nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. Vegna þeirra breytingartillagna vil ég örlítið vísa til þess með hvaða hætti Alþingi starfar og hvernig það á að starfa og hvaða viðmiðanir eigi að vera varðandi vandaða lagasetningu. Mér finnst full ástæða til að skoða það vegna þess að í ákvæðum laga um þingsköp er kveðið á um það með hvaða hætti og í hvaða formi þingmál skulu lögð fyrir þegar um tillögur til lagabreytinga eða heildarlög er að ræða. Þar er m.a. gert ráð fyrir að um þau sé rætt við þrjár umræður og málið gangi til nefnda á milli en frumvarpinu fylgi greinargerð sem skýri út og geri betur grein fyrir þeim spurningum sem upp kunna að koma varðandi túlkun og skýringar á viðkomandi lagaákvæðum.

Í gær vildi svo til við meðferð þessa máls hjá viðskiptanefnd að lögð var fram breytingartillaga frá meiri hluta viðskiptanefndar sem samþykkt var að yrði flutt og liggur hér fyrir. Hún fjallar um það að ef peningastefnunefnd meti það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógni fjármálakerfinu skuli hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til.

Hér er um að ræða mjög varhugaverða tillögu að mínu viti, tillögu sem getur verið mjög skaðleg. Í tillögunni er ekki í nein skýring á því hvað átt er við með orðunum alvarleg hættumerki. Það er engin skilgreining á því. Það er ekkert sagt um „viðvaranir þegar tilefni er til“. Það fylgir engin skýring á þeim ákvæðum sem verið er að fjalla um með einum eða neinum hætti. Og í málflutningi hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, formanns viðskiptanefndar, komu ekki fram neinar skýringar sem gætu fyllt út í þær eyður sem eru í tillögunni hvað þetta varðar.

Þessi tillaga er að mínu viti stórhættuleg. Það kom fram í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að hann hefði misskilið þá skýrslu sem fjallað var um og nefndin fékk í hendur í gær frá Larosiere Group og þar vísaði hann til ákveðinna töluliða og taldi að breytingartillagan sem ég var hér að vísa til væri í samræmi við það sem kveðið væri á um í tölulið 170 og 171 í umræddri skýrslu. Ef til vill er það vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki haft tóm til þess að lesa skýrsluna í gegn og jafnvel ekki aðrir í meiri hluta nefndarinnar. En þetta er einhver meiri háttar misskilningur hjá hv. þingmanni vegna þess að fjallað er um það með hvaða hætti skuli koma tilkynningum að í tölulið 180, sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og væntanlega formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, hafa ekki komist yfir að ná svo langt að lesa í skýrslunni. Þar er fjallað um það með hvaða hætti og hvernig skuli bregðast við hættumerkjum í fjármálakerfinu, hvað skuli gera og hverjum skuli tilkynna á hvaða stigi hvað. Og þar er um að ræða í raun sjö stig. Það eru sex stig tilkynninga sem skulu fara fram í fjármálakerfinu áður en kemur að því stigi sem fjallað er um í þessari breytingartillögu, að gefa skuli út opinberar viðvaranir. Það liggur fyrir og kemur einmitt mjög glögglega fram í þeirri skýrslu sem ég er að vísa í frá Evrópusambandinu að það er hættulegt, það getur beinlínis orðið til þess að fella fjármálakerfi að hafa ákvæði sem þetta sem er fortakslaust ákvæði um að gefa skuli út opinberar tilkynningar ef um hættumerki geti verið að ræða.

Ég vek athygli á því sem breytingartillagan felur í sér þegar talað er um alvarleg hættumerki, Það er ekki talað um hættu, það er talað um hættumerki og þá er það ekki valkvætt heldur skal hún tilkynna. Henni ber og ef hún gerir það ekki bregst hún embættisskyldum sínum. Mér er gersamlega hulin ráðgáta að meiri hluti viðskiptanefndar skuli ekki hafa áttað sig á um hve hættulega tillögu hér er að ræða og hve varhugaverð hún getur verið þegar til framtíðar er litið. Þess vegna vara ég eindregið við samþykkt þessarar tillögu og hef farið ítrekað fram á það við hv. formann viðskiptanefndar að draga tillöguna til baka af því að í fyrsta lagi er hún algerlega nýlunda inn í frumvarpið og í öðru lagi ekki í neinu samræmi við það sem kemur fram í frumvarpinu að öðru leyti, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gerði rækilega grein fyrir í ræðu sinni.

Þetta gerir það að verkum að maður veltir því fyrir sér hvort það sé þingleg aðferð að afgreiða mál með þessum hætti. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, nota tíma minn hér til þess að velta aðeins upp þeim spurningum hvort það sé þingleg meðferð og hvort það beri vott um vandaða lagasmíð að koma með tillögur sem þessar sem fela í sér verulega breytingu á frumvarpi fyrir 3. umr. Engin greinargerð fylgir tillögunni, engar skýringar og tillagan fæst ekki rædd nema við eina umræðu og gengur ekki til nefndar á milli. Þar með er í raun brotin sú hefð að vanda til lagasetninga.

Um þetta atriði er lítillega fjallað af nokkrum fræðimönnum þó að á síðari tímum hafi það lítið verið gert. Einar Arnórsson veltir þessu fyrir sér í ritinu Réttarsaga Alþingis frá 1941, sérstaklega á blaðsíðu 562, þar sem hann fjallar um hvort — og þá var um að ræða annars konar form, þá var um efri deild og neðri deild að ræða og málum síðan vísað til sameinaðs þings — þar veltir hann upp spurningunni um það hvort hægt sé að koma fram breytingum eftir að mál er komið í sameinað þing og kemst að þeirri niðurstöðu að það geti ekki verið annað en nánast lagfæringar á málfarsvillum. Og að breyttu breytanda sýnist manni að svipaðir skýringarmöguleikar gætu átt við hér þó að ákveðin hefð hafi skapast fyrir öðru. Ég vek athygli á þessu af því að mér finnst ástæða til að skoða hvort það sé eðlilegt að halda áfram löggjafarstarfi í þessa veru. Þá er ég að tala um nauðsyn þess að borin sé virðing fyrir Alþingi og við viljum vafalaust öll sem þar sitjum að Alþingi njóti sem mestrar virðingar en okkur ber þá að hafa umgjörðina sem um Alþingi er með þeim hætti að þar sé um vandaða löggjafarstarfsemi að ræða.

Bjarni Benediktsson fjallar um þetta með svipuðum hætti og Einar Arnórsson í riti sínu Deildir Alþingis sem útgefið var í Reykjavík árið 1939 en Ólafur Jóhannesson, sem var lengi þingmaður og ráðherra og forsætisráðherra, fjallar um þetta með ákveðnum hætti í Stjórnskipun Íslands frá 1960 þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Eigi er berum orðum að því vikið hversu róttækar breytingartillögur megi vera til þess að þær geti komist að en þar sem tiltekinn umræðufjöldi er áskilinn um mál og tilætlunin hlýtur að vera sú að um sama mál sé að ræða, þá virðist ótvírætt að ekki megi gerbreyta frumvarpi og tillögu svo að í raun og veru verði um annað mál að ræða en í fyrstu var flutt. Forseta, þar sem slík breytingartillaga er borin fram, ber því skylda til að vísa henni frá. En ef það ferst fyrir og breytingartillaga er samþykkt er réttast að fara með þetta sem nýtt mál og miða umræðufjölda við það.“

Þetta er niðurstaða hins virta lagaprófessors Ólafs Jóhannessonar heitins um þetta atriði.

Hér er um það að ræða að sú breytingartillaga sem borin var fram í viðskiptanefnd í gær fjallar í raun um nýtt mál og með tilliti til þess sem hér segir er alveg ljóst að hér erum við komin á ystu brún eðlilegrar meðferðar löggjafarvaldsins á því með hvaða hætti löggjafarvaldsstarfsemi fer fram.

Ég vakti máls á þessu í viðskiptanefnd í gær og taldi að það væri óeðlilega að málum staðið og nauðsynlegt væri að vanda mjög til verka, það væri alveg lágmark að farið væri yfir þá tillögu sem hér um ræðir og það gæfist kostur á að skoða og kanna viðhorf þeirra sem gerst þekkja til í fjármálalífinu. Ég nefndi þar til nokkra aðila og taldi að nefndin gæti haldið fund nú í morgun og það þyrfti ekki að tefja umræður að fá fram álit þeirra sem gerst þekkja til bankamála og fjármála þjóðarinnar, að fá alla vega álit þeirra á ákvæði eins og því sem fjallað er um í þessari breytingartillögu.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þetta er algerlega á skjön við allt sem peningastefnunefnd á að gera að öðru leyti. Það er það merkilega í málinu. Þannig að hér er í raun um nýja tillögu að ræða hvað þetta varðar og þar sýnist mér að orð fræðimannsins Ólafs Jóhannessonar sem ég gat um, á blaðsíðu 269 í Stjórnskipun Íslands frá 1960, eigi við.

Þar fyrir utan, eins og ég hef áður getið, vantar alla vitræna glóru í þessa tillögu. Ég hrósaði hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sérstaklega fyrir það með hvaða hætti hún hefði komið að formennsku í nefndinni og tekið tillit til ákveðinna sjónarmiða og komið að breytingum á því frumvarpi sem við ræðum hér. Því miður virðist mér að hér á lokasprettinum sé henni að bregðast töluvert bogalistin með því að standa að málum með þessum hætti og ég ímynda mér ekki annað eða ég á bágt með að trúa því að það sé gegn betri vitund sem meiri hluti viðskiptanefndar leggur til að þessi breyting verði gerð eða telji að með henni verði frumvarpið betra og að um betri lög verði að ræða.

Virðulegi forseti. Ég tel, miðað við þá tillögu sem hér liggur fyrir, að breytingartillaga minni hluta viðskiptanefndar, um að leitað sé staðfestingar Alþingis á skipun seðlabankastjóra, sé nauðsynleg við þær aðstæður sem nú er um að ræða. Það er verið að tala um að reyna að treysta stöðu þingræðisins í landinu, að framkvæmdarvaldið fari ekki sínu fram með þeim ofurþunga sem lýst hefur verið og var m.a. lýst af hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni áðan, og hvað er þá líklegra til að geta komið í veg fyrir það eða setja ákveðin bönd á framkvæmdarvaldið en einmitt breytingartillaga okkar í minni hluta viðskiptanefndar, að Alþingi þurfi að staðfesta skipun forsætisráðherra í jafnmikilvægt embætti og hér um ræðir. Mér finnst satt að segja með öllu fráleitt hvernig ákvæði til bráðabirgða er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og held mig við það að ákvæði til bráðabirgða sem er í því frumvarpi sem ég flutti um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sé eðlileg stjórnsýsla. Eins og ákvæði til bráðabirgða er í stjórnarfrumvarpinu verður Seðlabankinn stjórnlaus undir valdi forsætisráðherra þar sem bráðabirgðabankastjóri verður skipaður þangað til auglýsing fer fram og annar verður ráðinn. Svo mikið virðist liggja við að ná fram einhvers konar aðgerðum gagnvart núverandi bankastjórn Seðlabankans að farið er í vonda stjórnsýslu varðandi það sem þarna er um að ræða og óvandaða lagasetningu.