136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:48]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka undir þau sjónarmið sem ég rakti varðandi vandaða lagasmíð. Ég hlýt að skilja það þannig að þingmaðurinn sé sammála þeim sjónarmiðum og röksemdum sem ég setti fram í tilvitnuðum ummælum í rit Ólafs Jóhannessonar. Ég gat ekki skilið mál hennar með öðrum hætti en þeim. Sé svo er spurningin um gildi þeirrar breytingartillögu sem við erum að fjalla um, hvort þarna sé í raun verið að breyta frumvarpinu með þeim hætti að það stangist á við eðlilega lagasetningu og það tel ég raunar vera.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gat réttilega um að það hefði verið ákveðinn flaustursgangur í sambandi við málsmeðferð á Alþingi og óvandaða lagasetningu. Ég er hv. þingmanni algerlega sammála um að á þeim tíma höfðum við algerlega samstöðu um að vara við því með hvaða hætti það væri gert. Ég vara við þessu því að hér er í raun verið að kveða á um algerlega nýtt hlutverk peningastefnunnar sem hvergi er gert ráð fyrir í því frumvarpi sem lá fyrir, heldur ekki eftir þær breytingar sem samþykktar voru eftir 2. umr. á þinginu. Hér er því í raun um nýja tillögu að ræða, nýtt verklag og ný sjónarmið.

Ég vil að gefnu tilefni, virðulegi forseti, spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvort hún sé sammála mér, þar sem ég vísaði í tölulið 180 í skýrslu Evrópunefndarinnar, að þar sé um að ræða ákvæði sem er sambærilegt varðandi með hvaða hætti skuli gera viðvaranir og gera hluti opinbera þegar hætta stafar af fjármálakerfinu.