136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins hvað varðar 180. gr. og þær tvær tillögur nefndarinnar sem eru númeraðar 16 og 17 sem koma í framhaldi þeirrar greinar, vil ég taka fram að þar er um að ræða skipun sérstakrar nýrrar stofnunar, eins konar kerfisáhætturáðs sem á að hafa yfirumsjón með því m.a. að koma upp varúðarkerfi. Allt er þetta á „bírókratískum“ nótum Evrópusambandsins og ef þessar tvær tillögur eru lesnar sést greinilega að þetta gengur út á það að einbjörn togi í tvíbjörn og tvíbjörn síðan í þríbjörn og þríbjörn í fjórbjörn o.s.frv.

Við búum svo vel í samfélagi okkar að við eigum að geta haft gagnsæjar reglur og allt uppi á borðum. Ég mótmæli því sérstaklega að með þessari tillögu, ólíkt tillögu þeirri sem hv. þingmaður flytur og lögð var fram á fundi nefndarinnar fyrir þessa umræðu — hún fékk þar umræðu í rúmlega klukkutíma í gær — sé á ferðinni einhver grundvallarbreyting á verkefnum peningastefnunefndar.

Ég les eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika.“

Þetta er það sem segir um verkefnið. Það var útvíkkað með stuðningi allra nefndarmanna þannig að það tæki ekki aðeins til efnahags- og peningamála heldur einnig til fjármálalegs stöðugleika. Áhættan sem hér er verið að tala um, að menn skuli vara við, gengur einfaldlega út á þetta. Þetta er bara krafa um að menn tali skýrt. Menn geta ekki falið sig á bak við það að hafa sagt eitthvað í lokuðum herbergjum eða hvíslað einhvers staðar á prívatfundum.