136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Peningastefnan er auðvitað eitt af þeim stjórntækjum sem við höfum í hagstjórninni almennt séð og peningastefnan getur ekki verið tekin í einhverju tómarúmi eða úr samhengi við aðra hluti. Ég tel því að það sé sjálfgefið að ákvarðanir sem peningastefnunefnd tekur séu í samhengi við hagkerfið, við ástand efnahagsmála að öðru leyti. Að sjálfsögðu hlýtur peningastefnunefndin að fylgjast grannt með því sem er að gerast í efnahagsmálum og fjármálum þjóðarinnar, það liggur í augum uppi.

Ég get því ekki tekið undir þá athugasemd sem hv. þm. Birgir Ármannsson kom með áðan.