136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. viðskiptanefnd og formanni hennar fyrir ágæta umfjöllun sína og að skila málinu hér inn til 3. umr. Ég hef ekki tekið til máls í hinum tveimur fyrri og ætla út af fyrir sig ekki að hafa hér langt mál enda verið þeirrar skoðunar að málefni Seðlabankans væru í sjálfu sér löngu útrædd, það væri ekki neitt annað sem ætti fyrir okkur að liggja en að taka ákvarðanir í þeim efnum. Ef eitthvað er þurfum við alþingismenn, held ég, í öllum flokkum aðeins að hugsa um það hversu langan tíma það hefur tekið okkur að afgreiða þetta mál sem þó var þaulrætt löngu áður en það kom hingað inn vegna þess að það er ábyrgðarhluti að taka jafnlangan tíma og í það hefur farið af störfum þingsins á þeim tímum sem nú eru uppi.

Um málið sjálft er það einfaldlega að segja að það var ekki hægt að „haarda“ þetta lengur, en sögnin að „haarda“ er sem kunnugt er nýyrði í íslensku yfir það að hafast ekki að, taka ekki ákvarðanir. Öllum er ljóst að eftir algjört hrun á gjaldeyrismarkaði og síðan algjört hrun á fjármálamarkaði var einfaldlega óhjákvæmilegt að gera þær nauðsynlegu faglegu breytingar sem allir menn á Íslandi í öllum flokkum vissu löngu áður en að þessu kom að nauðsynlegt var að gera. Allir Íslendingar hafa um langt árabil vitað að það færi ekki vel á því að stjórnmálamenn stýrðu efnahagsmálum úr stóli aðalbankastjóra Seðlabankans. Stöku menn geta þrætt fyrir það að þeir hafi um árabil verið þessarar skoðunar en ég ætla bara að leyfa mér að fullyrða að það hafi allir vitað það lengi að þetta fyrirkomulag var einfaldlega rangt. Ég held líka að það hafi sýnt sig að vera skaðlegt og það hefur ekkert að gera með þá persónu sem því gegnir. Það hefur bara með að gera það úr sér gengna fyrirkomulag sem við á Alþingi leyfðum að væri við lýði í Seðlabankanum allt of lengi og hefur reynst okkur því miður allt of dýrkeypt. Fyrir utan hrunið á gjaldeyrismarkaði og fyrir utan hrunið í fjármálakerfinu er staðreyndin sú að Seðlabanki Íslands varð gjaldþrota bara alveg eins og viðskiptabankarnir.

Í orðaskiptum mínum við hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmar Haarde, á síðasta ári kom í ljós að tjón bankans var að minnsta kosti 150 milljarðar, jafnvel allt að 300 milljarðar í kaupum á mjög vafasömum pappírum af bönkunum. Það þýðir 0,5–1 milljón á hvert mannsbarn í landinu. Ef Seðlabankinn hefði verið viðskiptabanki hefði einfaldlega þurft að setja honum skilanefnd og búa til fyrirbærið gamli Seðlabanki Íslands og síðan aftur nýi Seðlabanki Íslands og við hefðum sett hinum nýja Seðlabanka Íslands nýja yfirstjórn og nýtt skipulag eins og við gerðum í Landsbankanum, eins og við gerðum í Kaupþingi og eins og við gerðum í Glitni, vegna þess að fyrir því voru málefnalegar ástæður alveg eins og í viðskiptabönkunum og þær aðgerðir hafa ekkert með einstaklinga eða persónur að gera. Það er einfaldlega nokkuð sem verður að ganga í þegar stofnun hrynur, þ.e. að endurskoða yfirstjórn hennar og að einhverju leyti að gera á henni breytingar vegna þess að það verður einfaldlega að vera menning okkar.

Þó að mönnum kunni að hafa orðið mistök á þýðir það ekki að þó að þeir geti ekki lengur gegnt þeim störfum sem þeir áður gegndu að þeir séu verri menn fyrir það eða með nokkrum hætti óalandi og óferjandi eða hafi ekki hæfileika til að taka að sér ný störf og ný stjórnunarstörf, þvert á móti. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur Íslendinga þegar við reynum að innleiða hér þá menningu að axla ábyrgð, að gera það eins og gert er í kringum okkur þannig að menn séu fyllilega jafngóðir eftir sem áður og eigi sama kost til þess að koma aftur inn á vettvang og taka að sér störf og verkefni annars staðar í samfélaginu þó að þeir hafi af einhverjum ástæðum þurft að stíga til hliðar eftir gríðarlega atburði eins og hér hafa orðið. Það er undarlegt í raun að það skuli hafa tekið stjórnmálaforustuna í landinu sem við öll sem erum hér berum ábyrgð á — það er undarlegt að það skuli hafa tekið okkur svona gríðarlega langan tíma að ljúka þessu sjálfsagða verkefni.

Ég hygg að út af fyrir sig séu þær breytingar sem hér hafa orðið í meðhöndlun málsins ekki til annars en góðs. Ég held að það sé út af fyrir sig sem hér hefur komið fram hjá einstaka þingmönnum kannski hægt að hafa ólíkar skoðanir á því hvort peningastefnunefndin eigi að fá þetta hlutverk sem henni er ætlað með breytingartillögum á milli umræðna. Ég held þó að enginn geti sagt að það spilli málinu þó að það séu fleiri sem eigi að vera á vaktinni í viðbrögðum við fyrirsjáanlegu neyðarástandi og hljóti að vera öllum að meinalausu þó að það hlutverk sé falið fleiri en einum aðila.

Að svo mæltu, virðulegur forseti, vil ég fagna því að við séum loks komin að leiðarlokum í þessu máli sem hefur tekið okkur allt of langan tíma hér í þinginu.