136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil drepa á nokkra þætti í tilefni af ræðu hv. þm. Helga Hjörvars.

Í fyrsta lagi vildi ég nefna það að hv. þingmaður tók þannig til orða að það mátti skilja með þeim hætti að meðferð þessa máls, seðlabankafrumvarpsins, í þinginu væri að tefja fyrir öðrum þingmálum. Ég undrast þessi ummæli vegna þess að við höfum haft þetta inni í nefnd og þingið hefur haft full tök á að taka hvaða mál sem er til meðferðar meðan þetta hefur verið til meðferðar í nefndinni sem það hefur verið í tíu daga, tólf daga eða hvað það er. Þingið hefur haft öll tök á að taka hvaða mál á dagskrá sem er. Ef hv. þm. Helgi Hjörvar er að vísa til þess að einhver mikilvæg mál frá ríkisstjórninni bíði afgreiðslu hér í þinginu þá hygg ég að svo sé ekki. Ég hygg að það sé eitt frumvarp frá ríkisstjórninni sem bíður þess að komast á dagskrá og ég verð að segja að miðað við heiti þess máls bendir það ekki til þess að það snúist um að bjarga heimilum og fyrirtækjum í landinu, sem er grundvallarverkefni bæði Alþingis og ríkisstjórnar um þessar mundir.

Það er nefnilega þannig að eins og staðan er í dag þá hefur ríkisstjórnin ekki skilað inn í þingið öllum þeim frumvörpum sem hún talar um á blaðamannafundum. Á blaðamannafundum er talað um að það séu 24 eða 25 frumvörp afgreidd frá ríkisstjórn en bara níu þeirra hafa sést hér í þinginu, aðeins níu, og meiri hluti þeirra var reyndar unninn í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég hef því á tilfinningunni að núverandi ríkisstjórn sé fyrst og fremst ríkisstjórn yfirlýsinganna en ekki aðgerðanna.