136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson er með gleggri starfsbræðrum mínum á Alþingi og ég hélt satt að segja að ég hefði lýst því alveg skýrt hvers vegna ég teldi þetta mál vera mikilvæga forsendu fyrir öllu því sem við annars gerum. Það er einfaldlega þannig að þegar gjaldmiðill hrynur og þegar fjármálakerfi hrynur í kjölfarið þá ætti maður í endurreisnarstarfinu að byrja á að endurskipuleggja yfirstjórn Seðlabankans sem stýrir gjaldmiðilsmálunum og er banki bankanna, þ.e. kjarni fjármálalífsins og síðan auðvitað líka að endurskipuleggja fjármálafyrirtækin sem hrynja, eins og við höfum gert. Það er þess vegna hin málefnalega ástæða og ein mesta vanræksla ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ástæðan fyrir því að ég vísaði til þess að það hefði ekki verið hægt að „haarda“ þetta mál lengur er að sú ríkisstjórn reyndist ekki fær um að ljúka þessu máli vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Ég held að það sé miklu frekar andstaða Sjálfstæðisflokksins við málið sem hafi snúist um persónur en um málefni vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn til þess að endurskipuleggja yfirstjórn og skipta út fólki í öllum viðskiptabönkunum. Þegar Seðlabankinn hafði misst gjaldmiðilinn niður, fjármálastöðugleikann og var í þokkabót tæknilega gjaldþrota líka er erfitt að skilja hvers vegna menn féllust ekki á þær málefnalegu ástæður sem fyrir því voru að gera þar breytingar. Maður getur í raun ekki dregið neina ályktun aðra en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið þær persónur sem þar áttu í hlut ganga framar þjóðarhagsmunum. Ég held að það sé mikið umhugsunarefni fyrir okkur.