136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er bara eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég var eiginlega gáttaður á. Hann sagði að menn sem hefðu verið í stjórnmálum gætu illa stundað starf sitt áfram, þ.e. menn sem til dæmis eru lögfræðingar og hafa háskólapróf í því og verða svo seðlabankastjórar eftir að þeir ljúka stjórnmálaferli, að það skaði þá. Getur það virkilega verið að háskólamenn standi frammi fyrir því vali að fara í pólitík og eiginlega missa menntunina í einhverjum skilningi?

Nú er ég doktor í stærðfræði og ég ætla að vona að ég hafi ekki tapað allri menntuninni við það að fara á þing.