136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Hún var mun málefnalegri og hófstilltari en margar ræður sem hafa verið fluttar í dag. Hann mælti réttilega að á undanförnum árum hafi skapast ójafnvægi í hagkerfinu, vextir hafi verið til sölu og útflutningsgreinarnar hafi þurft að búa við gríðarlega mikið ójafnvægi sem var í íslensku samfélagi og kannski það að fjármálastöðugleikinn var í sjálfu sér enginn.

Í því frumvarpi sem hér er til umræðu eru einmitt ákvæði um að peningastefnunefnd eigi að grundvallast á markmiðum Seðlabankans, á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika. Í skýrslunni sem hefur verið til umræðu er einmitt komið inn á þann vanda sem hv. þingmaður hefur verið að lýsa. Til að bregðast við þessum sérstaka vanda leggur nefndin til að seðlabönkum alls staðar í Evrópu og víðar séu gefnar heimildir til að vara við ef þær sjá aðsteðjandi ógn í fjármálakerfinu. Það er þeirra ráð til að koma í veg fyrir að sama ástand skapist og hefur verið á Íslandi. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Ef við förum út í, eins og hann boðaði áðan, að þetta verði einhvern veginn lokað í bakherbergjum og menn séu að hvísla upp í eyrað á ráðamönnum, gerist þá ekki það sama aftur, að þótt Seðlabankinn eða peningastefnunefnd aðvari einhverja nefnd einhvers staðar þá verði allt á huldu og ekkert gerist?