136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar það ákvæði sem hér er um að ræða. Það kom fram í nefndinni í gær og eðli málsins samkvæmt hefur það ekki verið rætt til neinnar hlítar innan nefndarinnar. Þetta er nýtt ákvæði sem breytir starfi þessarar mikilvægu nefndar og enn á ný vísa ég til þeirra efasemda sem fram hafa komið. Að sjálfsögðu hef ég ekki haft tíma til að kynna mér þetta sérstaka ákvæði, orðalag þess eða afleiðingar þess eða hvernig það fellur að því skipulagi sem Seðlabanki Íslands lýtur. Seðlabankar eru mjög mismunandi að uppbyggingu og því er mjög mikilvægt, þó að menn hafi almenn sjónarmið um það hvernig að þessu málum skuli staðið, hvernig við getum tryggt best fjármagnsstöðugleikann, að það falli að því skipulagi sem við höfum komið upp með Seðlabankann. Það er það sem ég hef kallað eftir að verði rætt ítarlegar og fengnir sérfræðingar til að fara yfir.

Hvað varðar umsagnir þá er það mismunandi hvernig frumvörp eru afgreidd í þinginu og hvernig er farið með þau í nefnd. Ég er þeirrar skoðunar að þegar um er að ræða þvílíka grundvallarlöggjöf eins og lög um Seðlabanka Íslands eru, þá skipti miklu máli að hvert einasta atriði sé þaulhugsað, að búið sé fara yfir það algerlega frá grunni, færustu aðilar hafi verið kallaðir til málsins vegna þess að þegar við erum að fjalla um sjálfan grunn efnahagsstarfseminnar verða menn að vanda sig eins og hægt er og ná sem bestri pólitískri sátt um það hvernig þetta er gert. (Gripið fram í: Sammála.) Þetta er lykilatriði. Ég ætla ekki að fara að skattyrðast um það við hv. þingmann hvernig farið hefur með hin og þessi frumvörp í gegnum tíðina. Það er til langt syndaregistur þingsins um hvernig hefur verið farið með mál og ekki alltaf vel. En þetta mál skiptir svo gríðarlega miklu máli, sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu, að við vöndum okkur mjög mikið. Mér finnst það ekki nógu vandað að undir lok umræðunnar, á síðasta fundartíma nefndarinnar komi þetta breytingarákvæði fram og það er ekki hægt að ræða það eða kalla til sérfræðinga.