136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:10]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til nýrra laga um Seðlabanka Íslands, í 3. umr. Ég tel að frumvarpið hafi fengið alveg fullnægjandi meðferð eins og ég hef skynjað það þó að ég hafi ekki verið inni á þingi undanfarna daga. En eins og ég hef náð að fylgjast með því sýnist mér talsverð vinna hafa verið lögð í málið. Eins og fram kom í máli manna í morgun um þetta mál virðist aðalágreiningurinn um það birtast í breytingartillögu, þ.e. að peningastefnunefnd eigi að meta alvarleg hættumerki, hvort þau séu til staðar, hvort þau ógni fjármálakerfinu og hvort þá skuli gefa út einhvers konar viðvörun.

Þessi breytingartillaga byggir á því að hún er matskennd, þ.e. nefndin á að meta ástæður fyrir því ef og ef til þess kemur að gefa út einhvers konar viðvörun. Ég er í raun og veru ekkert hissa á því þó að í lokaumferð þessa máls hafi menn komið fram með slíka tillögu. Ég hygg, hæstv. forseti, að eftir að þjóðin varð vitni að viðtali í Kastljósi við Davíð Oddsson hafi það þótt næg ástæða til að setja fram svona tillögu þótt ekkert annað hefði komið til og menn hefðu enga skýrslu fundið hjá Evrópusambandinu. Bara einfaldlega það að standa uppi með þær fullyrðingar að núverandi seðlabankastjóri og seðlabankastjórarnir hafi búið yfir alls konar upplýsingum og komið þeim á framfæri eftir mjög mismunandi leiðum, svo mismunandi að ríkisstjórnin eða stærstum hluta hennar var ekki ljóst að þær hefðu komið fram. Bara sú niðurstaða ef rétt er — og henni hefur ekki verið mótmælt, ég vek athygli á því, hæstv. forseti, henni hefur ekki verið mótmælt. Fyrrverandi forsætisráðherra upplýsir að hann hafi vitað af slíkum upplýsingum en aðrir ráðherrar bera það hins vegar af sér, segjast aldrei hafa séð slíkar upplýsingar, ég nefni hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson. Því segi ég, hæstv. forseti, að ég mun styðja þetta mál heils hugar, í þeim búningi sem það er hér.

Ég tel að í ljósi reynslunnar hafi vissulega oftar verið ástæða til þess að vara við og menn hefðu betur vitað hvað var á ferðinni, fleiri en eingöngu fyrrverandi forsætisráðherra. Ég held að þjóðin eigi rétt á því að fá það upplýst í eitt skipti fyrir öll hvernig upplýsingagjöf fór frá seðlabankastjóranum til ríkisstjórnarinnar. Í hvaða formi var hún? Var þetta eitthvert kaffispjall Davíðs Oddssonar og Geirs Haardes, þar sem sýnd var blá bók eins og í sjónvarpinu, í Kastljósinu, um skýrslu sem hefði verið sýnd, sem öðrum virtist alls ekki vera kunnugt um? Þegar maður horfir á alla meðferð málsins úr þeirri stöðu sem íslenska þjóðin er í, eftir 18 ára valdaferil Sjálfstæðisflokksins, þá tel ég að menn ættu að fara varlega í það að leggjast gegn því að upplýsingar séu gefnar.

Hér á að meta það hvort gefa eigi slíkar upplýsingar, hvort gefa eigi út svona viðvörun. Það kann vissulega að vera vandasamt þegar á að gefa út viðvörun, ég tek alveg undir orð hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson í því sambandi. Það kann að vera mjög vandasamt að gera það en samkvæmt þessari grein á að gera það. Það á að leggja mat á hvort einhver ógn er í fjármálakerfinu. Það hefði verið betra að menn hefðu tekið það alvarlega í hvaða stöðu íslenska fjármálakerfið var að komast og þær viðvaranir sem menn virðast hafa fengið, m.a. frá Seðlabankanum. En þeim virðist ekki hafa verið komið öðruvísi á framfæri en svo að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra virðist hafa haldið þeim upplýsingum hjá sér með einhverjum hætti. Að minnsta kosti upplýsa sumir ráðherrarnir að þeir hafi ekki vitað um þær. Þetta er alveg furðulegt fyrir fólkið í landinu sem situr uppi með það að vera að missa eignir sínar, safna skuldum vegna afleiðinganna, atvinnulífið flatt, 15 þúsund manns á atvinnuleysisskrá, að fólk skuli sitja uppi með það dag eftir dag að bornar séu á borð upplýsingar sem þjóðin getur ekki fest hönd á hvort eru sannar eða ekki.

Ef þetta ákvæði getur orðið til þess að sett verði skilmerkilega fram viðvörun sem ástæða er til að íslenska þjóðin fái þegar allt er að fara til fjandans, þá er það bara gott. Það vinnulag sem lengi hefur viðgengist í íslensku þjóðfélagi má aldrei endurtaka sig, aldrei. Menn verða að meta það hér hvort eðlilegt sé að senda út slíka viðvörun. Ég er hræddur um að það hefði verið ástæða til þess fyrr að hafa slíkt ákvæði.

Þetta er það sem ég vil segja um þetta mál, hæstv. forseti, og sé ekki ástæðu til þess að þingið sé að eyða tíma sínum dag eftir dag og tala um það hvort það eigi að gera betur en við höfum gert á undanförnum árum. Við eigum að gera það, skilyrðislaust.