136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Ég get reyndar ekki tekið undir að vinnubrögðin í tengslum við þetta mál séu fagleg og í lagi. Ég veit ekki hvort Guðjón A. Kristjánsson hefur oft verið í þeirri stöðu sem stjórnarandstæðingur og óskað eftir því að fá upplýsingar um hverjir sömdu frumvörp sem honum er ætlað að fjalla um og er þá neitað um slíkar upplýsingar. Við það höfum við þurft að búa í tengslum við þetta mál.

Varðandi bráðabirgðaákvæðið sem við erum að tala um að peningastefnunefndin skuli gefa út viðvaranir opinberlega þegar hún telur tilefni til vegna alvarlegra hættumerkja, verð ég að spyrja hv. þingmann hvort hann óttist ekki þetta ákvæði.

Eins og ég ræddi í ræðu minni hafa yfirlýsingar slíkrar nefndar eða seðlabankastjóra, sem eru opinberar, mjög mikið vægi. Þær hafa gríðarleg áhrif á fjármálakerfið, svo stóralvarleg að þær geta leitt til þess að hlutabréf lækka, lánalínur lokast, veðköll hefjast og menn krefjast endurgreiðslu lána.

Um þessa tillögu hefur ekki farið fram nein efnisleg umræða í nefndinni eða neins staðar annars staðar. Það sem við, sem reynum að fjalla um þetta mál, höfum þurft að gera er að prenta út af netinu viðvörunarorð manna eins og Jóns Daníelssonar hagfræðings. Ég hefði talið að við hefðum þurft að fjalla um þessi mál með nákvæmari hætti, um þessa breytingartillögu sem gjörbreytir inntaki þessara reglna. Ég vil fá sjónarmið um það frá hv. þingmanni hvort hann sé ekki sammála (Forseti hringir.) mér um það. Hvort hann telji ekki að efni þessarar breytingartillögu (Forseti hringir.) sé þess efnis að um hana þurfi að fjalla nánar.