136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:19]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit nú ekki hvort við eigum að hafa miklar áhyggjur af því hvort textarnir sem hér eru hafi í upphafi verið settir niður á blað af Jóni eða Gunnu eða hvort þau hafi á síðari stigum málsins komið að því að leiðrétta textann og bæta hann. Ég held að textinn, eins og hann lítur út í dag, sé nokkurn veginn viðunandi. Ég sé ekki annað en að séu sett ýmis skilyrði fyrir beitingu þessa valds sem peningastefnunefndin á að hafa og hvernig hún er uppsett, hvers konar fólk skal veljast þar til starfa o.s.frv.

Ég hygg að henni sé fengið vald en líka þekking og eigi að geta metið hvort óhætt sé að senda frá sér viðvaranir og meta hvernig þær eigi þá að vera orðaðar.

Ég geri mér vel grein fyrir því að varúðarviðvörun um að alvarleg hættumerki séu til staðar í fjármálakerfi landsins sé ekki eitthvað sem menn setja að gamni sínu. Það þarf allrar athygli við. Ég treysti því að þegar við reynum að velja okkar hæfasta fólk til þess að fjalla um það verði slíkum ákvæðum beitt af skynsemi. Menn taki sem minnsta áhættu í því.

En það leysir okkur hins vegar ekki undan því að reynslan sem við búum við er ekki trúverðug. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan. Mér finnst reynslan ekki trúverðug hjá Seðlabankanum við framsetningu mála.