136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:24]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef menn hafa eitthvað misskilið þau orð mín að ég teldi það ekki aðalefni málsins hver samdi textann get ég samt tekið undir að það er auðvitað betra að menn viti hverjir sömdu textann. Ég sé enga ástæðu til að halda því leyndu. En það er samt efni textans sem skiptir fyrst og fremst máli og virkni þeirra ákvæða sem menn ætla að setja í lög. Það er það sem ræður því að mínu viti hvaða fylgni og aðgerðir fylgja lögum og reglum sem settar eru í þessu þjóðfélagi. Þess vegna segi ég að það eru ekki endilega nöfnin sem eru á bak við sem skipta máli.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að í viðskiptanefnd hafi komið fram greinargerð með frumvarpinu þegar það var lagt fram. Það hlýtur að hafa fylgt því greinargerð og gögn sem menn lögðu til með sér í textanum, hverjir svo sem höfundarnir voru eða voru ekki. Ætli það hafi nú ekki verið unnið í einhverri vinnu sem fleiri komu að en einn og fleiri en tveir, eins og gengur. Þannig að ég trúi því ekki að menn hafi ekki fengið einhver slík gögn inn í nefndina til að skoða og að textanum hafi fylgt einhverjar skýringar. Ef það hefur ekki verið verð ég að lýsa yfir undrun á því.

En efni málsins er fyrst og fremst sá lagatexti sem við fjöllum um og búið er að fjalla um. Ég vek athygli á því að mikill meiri hluti þingsins samþykkti uppistöðuna í frumvarpinu. Voru það ekki 50 þingmenn sem samþykktu það? Þeir hafa nú varla gert það án þess að vita neitt hvað þeir voru að gera. Ég trúi því ekki. Þess vegna sagði ég áðan að mér fyndist að ágreiningurinn snerist fyrst og fremst um (Forseti hringir.) viðbótarbreytingartillöguna.