136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit hefur það verið reglan að allir flokkar hafa komið að undirbúningi laga um Seðlabanka Íslands — þangað til nú. Eins og ég sagði í ræðu minni hefur ekki enn þá komið fram hver skrifaði frumvarpið. Það væri kannski ágætt ef hv. þingmaður mundi í andsvari sínu upplýsa okkur um það hver sá ágæti einstaklingur er.

Við þekkjum það líka að frumvarpið var ekki sent til umsagnar Evrópska seðlabankans, það var fellt í nefndinni. Það er ekkert ofsalega langt síðan, virðulegi forseti, að ég átti orðastað, þá sem ráðherra, við hv. þingmann um frumvarp um sjúkratryggingastofnun sem sannarlega er mikilvæg stofnun. Þar fórum við að óskum stjórnarandstöðunnar og frestuðum því á milli þinga. Meira að segja var það þannig að heilbrigðisnefnd fór á milli landa til að skoða stofnanir.

Virðulegi forseti. Sá hv. þingmaður sem hér talaði, núna formaður viðskiptanefndar, fór um það mörgum orðum að þetta væri sko aldeilis ekki nóg, ekki væri tekinn nægur tími í það mikilvæga mál. Það kemur þess vegna spánskt fyrir sjónir að núna þegar hv. þingmaður er komin í þessa stöðu telji hún að klára eigi lög um Seðlabankann á þremur vikum og það sé alveg sjálfsagt að leita ekki umsagnar til þeirra aðila sem best þekkja til.

Hv. þingmaður hefur tækifæri til þess núna að upplýsa þingið um það hver skrifaði frumvarpið.