136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú við 3. umr. hafa sjálfstæðismenn sem fyrr tönnlast á því hver hafi skrifað þetta frumvarp. Það var upplýst í hv. viðskiptanefnd að þetta er ríkisstjórnarfrumvarp skrifað á vegum forsætisráðherra og fyrir nefndina komu menn sem sögðust hafa komið að samningu þess, m.a. úr forsætisráðuneytinu. Ég veit ekki hvar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru þegar þetta kom fram. Þetta er hins vegar algjört aukaatriði, það er niðurstaðan sem skiptir máli og ég mundi í sporum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ekki nefna hér í þessu sambandi frumvarp eða lög um Sjúkratryggingar Íslands.

Ég man ekki betur en að það frumvarp hafi komið inn í þingið 16. maí í fyrra, nokkrum dögum fyrir áætluð þinglok. Það lá svo mikið á að það var sent út til umsagnar áður en því hafði verið vísað til nefndar. Þau vinnubrögð öll voru þvílíkt hneyksli að ég ætla bara að biðja hv. þingmann að taka það ekki sem eitthvert dæmi um góða málsmeðferð.

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þingmann um þessa hluti sem hann kýs að draga hér upp í ræðu sinni. Erindi mitt var, eins og ég sagði áðan, að slá skildi fyrir þá nefndarmenn sem hafa lagt á sig mikla vinnu í viðskiptanefnd, og þá sem hafa lagt á sig mikla vinnu við að skrifa umsagnir og koma á fund nefndarinnar, oft með litlum fyrirvara. Árangurinn af því góða starfi liggur fyrir í því að allir sjálfstæðismenn sem hér voru staddir á föstudaginn var studdu málið.