136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér aftur hljóðs um þetta mál til að fagna því að hér við umræðuna er nú staddur hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, (Gripið fram í.) og hæstv. fjármálaráðherra var hér líka við umræðuna. Ég kvartaði nefnilega sáran yfir því áðan þegar ég hélt aðalræðu mína um þetta mál að enginn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar væri viðstaddur og sýndi málinu áhuga, eins mikilvægt og það er, nýtt frumvarp um Seðlabanka Íslands sem á að vera þungamiðjan í því endurreisnarstarfi sem menn vilja fara í í fjármálakerfinu eftir hrunið. Það kom mér því spánskt fyrir sjónir á þeim tíma þegar ég hélt þá ræðu fyrr í dag að enginn ráðherra, og einungis einn stjórnarmeðlimur, væri viðstaddur.

Nú hefur verið gerð bragarbót á þessu, hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson er mættur í salinn og er það vel.

Mér finnst nefnilega mikilvægt að hæstv. ráðherrar heyri þau sjónarmið sem við í stjórnarandstöðunni höfum fram að færa. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og fleirum sem hér hafa komið fram um það að við sjálfstæðismenn viljum greiða fyrir öllum þeim málum sem eru þess eðlis að bæta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og stuðla að endurreisn. Gallinn við það mál sem við ræðum hér er að þetta mál, nýtt frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands, hefur ekkert með þau mál að gera. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem kveður á um framtíðarsýn varðandi stefnu í peningamálum eða hvað varðar efnahagslegan stöðugleika. Þetta er kerfisbreyting á Seðlabankanum sem hefur ekkert með það að gera að bæta lífskjörin í landinu.

Það sem ég hef áhyggjur af, herra forseti, er sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir. Hún kveður á um það að peningastefnunefnd skuli gefa opinberlega út viðvaranir þegar alvarleg hættumerki eru til staðar að hennar mati. Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics, hefur gagnrýnt þessa breytingartillögu og það er eiginlega eina umsögnin sem við höfum fengið um hana. Þannig er haldið á þessum málum hér, en ég vil fá að heyra viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra við þessum tillögum. Síðustu daga hefur mikið verið rætt um, og ég vísaði til þess í ræðu minni og einkum til viðtals sem fór fram í Kastljósinu varðandi yfirlýsingar seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, annars vegar opinberar yfirlýsingar og hins vegar yfirlýsingar sem gefnar voru ríkisstjórn þar sem seðlabankastjórinn varaði við hruni bankakerfisins.

Fjölmiðlar hafa bent á að seðlabankastjórinn hafi talað öðru máli opinberlega í fjölmiðlum. Það er alveg rétt. Að mínu mati er ástæðan sú að daginn sem seðlabankastjórinn talar opinberlega um það að bankakerfið sé að hrynja hrynur það. Slíkt er vægi slíkra yfirlýsinga. Þess vegna þurfa menn að velja sér vettvanginn til að koma með viðvaranir.

Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að peningastefnunefndin sé skyldug til að gefa út slíkar yfirlýsingar þegar hún telur hættumerki í fjármálakerfinu. Ég hef haldið því fram að þessi nýja grein geti falið í sér innbyggt banagen kerfisins, þ.e. ef við gefum okkur að bankarnir verði ekki endalaust í ríkiseigu heldur gerðir að hlutafélögum og slík yfirlýsing verður gefin út er augljóst mál að hlutabréfaverð mun falla, erlendar lánalínur munu lokast, veðköll verða gerð og útistandandi lán krafin greiðslu. Hvað ætla menn að gera ef peningastefnunefndin hefur rangt fyrir sér? Þá er skaðinn engu að síður skeður. Það sem ég er að benda á hér er sú hætta sem felst í þessu ákvæði, þ.e. skylda um opinberar yfirlýsingar frá peningastefnunefnd Seðlabankans getur haft það í för með sér að fjármálakerfið hrynji aftur. Menn verða að finna einhverjar aðrar leiðir til að mæta þeim markmiðum sem að er stefnt.