136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er með efnilegustu stjórnarandstæðingum sem hér hafa lengi komið fram frá því að hæstv. heilbrigðisráðherra var á sokkabandsárum sínum í stjórnarandstöðu ásamt ýmsum góðum félögum sínum.

Hv. þingmaður þarf hins vegar ekki að kvarta undan því að ráðherrar sitji ekki við umræðuna. Þetta mál er alfarið á höndum þingsins. Ráðherrar þurfa ekki að vera hér við umræður eftir að málið er komið til kasta þingsins. Ég hef sjálfur lagt á það áherslu að ég skipti mér ekki af málum þegar þau eru komin til þingsins. Þar í liggur ein aðgreining milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, svo einfalt er það nú.

Hv. þingmaður sagðist hafa áhyggjur af einum hlut varðandi frumvarpið en það væri hin nýja breytingartillaga sem liggur fyrir að frumkvæði hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður og allir félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hafi haft stórkostlegar áhyggjur af frumvarpinu öllu. Þeir eru búnir að liggja hér í samfelldri vörn fyrir þann mann sem mestu ræður í Sjálfstæðisflokknum, sem er núverandi seðlabankastjóri, það hefur verið þeirra ræða daginn út og daginn inn.

Að því er varðar síðan þetta tiltekna atriði sem hv. þingmaður spurði mig um þá hef ég ekki þessar áhyggjur. Ég gef ekkert fyrir það þó að Jón Daníelsson hafi sérstakar áhyggjur af því. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef ekki orðið var við það álit hans. En svo vill til að hann er einn af efnahagsráðgjöfum hins unga þingmanns hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar sem leggur þetta fram. Jón Daníelsson hefur sérstaklega verið kallaður til landsins sem efnahagsráðgjafi Framsóknarflokksins.

Varðandi síðan þá skyldu sem lögð er á peningastefnunefndina samkvæmt frumvarpinu þá er ekkert sem segir að hún eigi að bíða með að gefa út yfirlýsingar sínar þangað til allt er komið í kaldakol eða hrunið. Eins og ég skil þetta ákvæði þá er það þannig að hún á að gefa út álit sitt þegar hún telur að þróun sé farin í gang í íslensku efnahagslífi sem rétt sé að „afvikle“ með einhverjum hætti. Hún á ekki að bíða þangað til að hlutirnir eru komnir í það óefni sem þeir voru þegar leið hér á haustið.