136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég ítreka það, herra forseti, að okkur ráðherrum ber engin skylda til að vera við umræður um mál sem hingað eru komin á síðasta snúningi. Ég tel hins vegar að af hálfu ríkisstjórnarinnar og framkvæmdarvaldsins sé það kurteisi að vera hér viðstödd. Hæstv. forsætisráðherra er að sinna erlendum forsætisráðherrum sem hér eru í heimsókn. Hæstv. fjármálaráðherra þurfti að víkja af þingfundi til að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann bað mig um að standa vaktina fyrir ríkisstjórnina og það geri ég. (Gripið fram í.) Já, og ég þakka það hrós. Það er gagnkvæmt. Mér finnst hv. þingmaður snarborulegur og hann er með einhverjum langefnilegustu uppivöðslumönnum sem lengi hafa komið fram á hinu háa Alþingi og ég óska honum til hamingju með það.

Það er hins vegar alrangt hjá honum að hér hafi átt sér stað einhver málefnaleg umræða af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagst í þras og tóma vitleysu og röfl og ekki haft uppi nokkra málefnalega umræðu eða ágreining. Ræða hv. þingmanns hér fyrr í dag og á fyrri stigum hefur öll snúist um það að verja gamlan foringja, og ég ætla ekki að segja neitt illt um hann.

Hið eina sem hefur komið fram málefnalegt af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins er um þetta atriði sem við ræðum hér, þ.e. hina nýju breytingartillögu. En þar hafa röksemdir hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins allar byggst á skæklatogi eða misskilningi. Ég ætla hv. þingmanni ekki þann greindarskort að hann skilji það ekki að breytingartillagan felur það ekki í sér að peningastefnunefndin eigi að bíða með það þangað til allt er komið á heljarþröm að segja: Kerfið er að falla. Að sjálfsögðu er ætlunin sú að þegar peningastefnunefnd telur að breytingar eða hræringar séu innan lands eða erlendis sem þurfi að taka mið af þá gefi hún það til kynna með einhverjum hætti.

Seðlabankanum bar skylda til að gera slíkt hið sama. Staðreyndin er hins vegar sú að hann reis ekki undir þeim skyldum. Ég ætla ekki að fara að ræða hér allar þær þverstæður sem eru á milli þess sem núverandi seðlabankastjóri hefur sagt um stöðu efnahagsmála opinberlega og hins sem hann segist hafa sagt í einhverjum einkasamtölum við flokksbræður hv. þingmanns. En hér er ég og stend vaktina (Forseti hringir.) og er reiðubúinn til andsvara við hv. þingmann. (Forseti hringir.)