136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:27]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að okkur kann að greina á um það, mig og hæstv. utanríkisráðherra, hvenær menn eru snertir hendi Guðs. Eftir því sem ég man Postulasöguna þá sá Sál ljós. (Gripið fram í: Hann varð fyrir eldingu.) Hann varð fyrir eldingu og varð blindur þannig að samlíkingin getur ekki átt við. (Gripið fram í.) Hitt er annað mál, hæstv. utanríkisráðherra, að ef það er svo að það sé þitt mat, hæstv. forseti, að ég hafi séð ljósið og tali í anda sannleikans þá eru það tvímælalaust orð að sönnu og rétt mat hæstv. utanríkisráðherra.

Hvað varðar það frumvarp sem ég flutti um breytingar á lögum Seðlabankans þá er þar um að ræða, eins og ég hef getið í umræðunni um þetta frumvarp, m.a. algjörlega aðra aðferðafræði varðandi þau bráðabirgðaákvæði sem um er að ræða. Ég bendi bara á að hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki hafa fylgst með umræðunni af nægjanlega mikilli athygli því að m.a. hafa flokksbræður mínir í viðskiptanefnd sem hér hafa talað við 3. umr. og 2. umr. málsins sagt að frumvarpið hafi tekið miklum stakkaskiptum og orðið allt annað í meðförum viðskiptanefndar. Það er staðreyndin í málinu þannig að við tölum með sama hætti hvað það varðar. Frumvarpið var hins vegar þegar það kom til viðskiptanefndar í því formi að það var á mörkunum að geta talist þinglegt.