136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:31]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einhver meiri háttar misskilningur hjá hæstv. utanríkisráðherra en hann verður að hafa sinn misskilning í friði og ég reikna ekki með því að hægt verði að leiðrétta hann úr þessu. En það er alveg ljóst og það mátti alveg ljóst vera að það þyrfti að gera breytingar á peningamálastefnu og peningamálastjórn í landinu.

Það sem ég gagnrýndi þegar þetta frumvarp kom fram var að frumvarpið fjallar ekkert um það. Það var megininntakið í gagnrýni okkar við 1. og 2. umr. málsins og það var það sem var inntakið í ræðu minni við 2. umr. málsins, þ.e. að í raun vantaði inn það mikilvæga inntak sem hefði þurft að vera í frumvarpinu en var þar ekki.

Varðandi þá síbylju að hér séu menn í varðstöðu um einhverja einstaklinga eða einstakling þá var ekki um það að ræða. Hæstv. utanríkisráðherra nefndi eitthvert frumvarp sem hefði komið fram á sínum tíma og verið allt í henglum en hefði tekist í meðförum þingsins að gera þokkalega útlítandi og hefði reynst vel síðan. Í sjálfu sér má alveg taka undir að það er verkefni Alþingis að reyna að vanda til lagasetninga og það er það sem ég legg mestu áherslu á hér, að við sendum frá okkur vandaða lagasmíð. Sú breytingartillaga sem lögð er fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar er dæmi um óvandaða lagasmíð og það er það sem ég hef helst verið að gagnrýna og það er sú aðferðafræði sem er varðandi bráðabirgðaákvæðið sem er hreinlega beint að Seðlabankanum þannig að hann verði stjórnlaus um ákveðinn tíma. Það eru þau atriði sem ég get ekki sætt mig við. Það eru það sem ég hef gagnrýnt sem vonda stjórnsýslu.

Það versta í þessu máli er að það er ekki tekið á þeim atriðum sem m.a. hæstv. viðskiptaráðherra hefur orðað varðandi Seðlabankann, varðandi peningamálastefnuna, það er ekki tekið á þeim atriðum með þessu frumvarpi. Það breytir engu þar um.