136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:33]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf talið óskynsamlegt á Íslandi að tefla á tæpasta vað þegar hætta vofir yfir og óáran er í loftinu. Það er engin spurning að þeim öldugangi sem Ísland hefur verið í síðastliðna mánuði má lýsa með þeim hætti.

Það er til að mynda fáránleg hugmynd, virðulegi forseti, að láta sér detta í hug að taka stofnunina Seðlabanka Íslands úr sambandi í miðju kafi. Það mundi engum heilvita manni detta í hug að taka menn frá borði báts í brimgarði ef vélin gengur enn, ef menn ætla að reyna að sigla út úr brimgarðinum. Það mundi engum detta það í hug. Þannig eru menn að véla í stjórn landsins í dag. Því miður snýst þetta ekki um að vinna skynsamlega að breytingum, skynsamlega að því að meta rök og virða meiri hluta sem er sjálfsagt. Þetta snýst um það að skekja hluti til óheilla fyrir íslenska þjóð. Það má gagnrýna menn. En menn verða að horfa yfir sviðið og gæta þess að það sé ekki á kostnað skynsamlegra vinnubragða í þágu þjóðarinnar. Á þessum vettvangi eru menn að hossast án raka, með reddingum í óþinglegum tillögum sem koma inn í nefndir, menn reyna að sníða þeim stakk í stórmálum sem varða stöðu og stefnu þjóðarinnar. Þetta eru illa grunduð vinnubrögð, óvönduð vinnubrögð sem eiga ekki við á hinu háa Alþingi og íslensk þjóð á ekki slíkt skilið.

Hæstv. ríkisstjórn sigldi máli í nefnd inn í þing, stórmáli sem varða Seðlabanka Íslands sem á að vera eitt af ankerisfestum okkar og það var leyndarmál hverjir sömdu það, þó að það hafi opnast um síðir. En það verður að fara hundruð ára aftur í tímann og sækja fyrirmyndir í stjórnsýslu, kannski fyrirmyndir til vanþróuðustu ríkja þar sem beitt er geðþóttaákvörðunum, valdníði, einelti og geðþótta í miklum mæli. Það er ekki gott þó að menn hafi ákveðnar skoðanir á einstaklingum í þjóðfélaginu. Það á bara ekki að koma málinu við, virðulegi forseti. Menn eiga að hafa burði til að horfa fram hjá slíku og yfir slíkt þegar þeir vinna að lagasetningu sem varðar eina af ankerisfestum íslensks samfélags. Þannig hefur hæstv. ríkisstjórn verið hrokafull með eindæmum og hefur ekki meiri burðargetu en lítil julla þegar kemur að því að bera fyrir brjósti metnað og forsvar fyrir íslenskt samfélag, lítil julla áralaus.

Að undanförnu hefur ríkisstjórnin beitt hinu litla þreki í að hrinda og pota í stjórnendur Seðlabanka Íslands fyrir að vinna ekki þá vinnu sem þeir áttu ekki að vinna. Það er engin spurning að það er verið að pota þar í menn sem hafa reynst með afburðum góðir embættismenn um áratugaskeið fyrir íslenskt samfélag, á vettvangi Seðlabanka Íslands. Þeim er hent fyrir borð eins og úrkasti, (MÁ: Brottkasti.) nei, ekki eins og brottkasti, hv. þingmaður, eins og úrkasti. Það er mikill munur á brottkasti og úrkasti en kannski veit hv. þm. Mörður Árnason (MÁ: Ég veit það.) ekki hver er munur á því þegar talað er um til sjós. Það er grundvallarmunur. Skotmarkið er ekki málefnaleg og rökstudd niðurstaða heldur stjórnlaust hatur á Davíð Oddssyni. Því miður er það línan í þessum dæmum. Alveg sama hvernig menn eru að tálga í kringum það, það er línan í þessum dæmum. Og þótt menn hafi hatur á einum manni á þann hátt þá hafa þeir ekkert leyfi til að blanda því inn í lagasetningu landsins. Það er a.m.k. ekki mjög nútímalegt. Nema við viljum innleiða Sturlungu enn á ný í samfélagið og kannski er ekkert djúpt á Sturlungu í eðli okkar Íslendinga. Engu að síður reikna ég ekki með að það sé vilji manna að leiða þá öld inn aftur í dag. Stjórnlaust hatur á einum manni og undirlægjuháttur við þá stjórnleysingja sem til að mynda börðu bíl Geirs Haardes, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, fyrir utan Stjórnarráðið, (Gripið fram í: Var það ekki Hallgrímur Helgason?) börðu bíl ráðherrans, hræktu og skyrptu, öskruðu eins og dýr skógarins í versta ham. Er þetta það sem Alþingi á að verja? Líklega ekki. Í ákveðnum mótmælum í þessum dúr bárust meira að segja þessu fólki andlegir skyrdallar úr sjálfu þinghúsinu til að hvetja til uppsteita og óvandaðrar framkomu, andlegar skyrdollur úr sjálfu þinghúsinu bornar til þeirra af sumum hv. þingmönnum í þessu húsi. Þeir verða að eiga það við sig sem að því stóðu.

(Forseti (KHG): Forseti vill mælast til þess við hv. þingmann að hann hafi gát á ummælum sínum í ræðustól.)

Alþingi og ríkisstjórn verða að standa eins og klettur gegn alþingi götunnar. Það er eitt að hlusta á almenn sjónarmið þorra fólks í landinu sem byggir á brjóstviti, eðlilegri gagnrýni og allt slíkt eða taka undir aðgerðir sem eru ekki boðlegar í menntuðu samfélagi, nútímasamfélagi, litlu samfélagi, fjölskyldusamfélagi Íslendinga. Við verðum að gæta þess að lenda ekki í sömu sporum og Guðrún Ósvífursdóttir sem hafði á orði að þeim hefði hún verið verst sem hún unni mest. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að skilgreina skilning Guðrúnar Ósvífursdóttur. Ég þekkti hana ekki persónulega. Sagan segir sitt og við hljótum að geta dregið ályktanir út frá henni því oft hefur þessi tilvitnun verið notuð í líkingatali í íslensku máli, í gegnum aldirnar eins og annað úr okkar mögnuðu Íslendingasögum.

Það er nú svo að menn verða að geta staðið uppreistir þegar þeir ganga frá lagasetningu á Alþingi á jafnviðkvæmum tímum og nú eru og þeim mun meiri ástæða er til að vanda öll vinnubrögð. Þegar gengið er fram með þeim hætti að Seðlabanki Íslands fellur á milli skips og bryggju í samfélaginu, með því að sigla í gegn lögum sem tryggja ekki staðfestu í stjórn bankans vegna geðþóttaákvörðunar hæstv. ríkisstjórnar, meðan það er ekki tryggt er það óalandi. Það er hyggilegast fyrir íslenskt samfélag að það byggist ekki á því að menn séu að rækta ótuktarskap. Þess vegna er það áhyggjuefni, þess vegna er þetta tortryggilegt, vægt til orða tekið, og alls ekki trúverðugt. Þannig blasir þetta við venjulegu fólki, venjulegu fólki á Íslandi sem lætur ekki glepjast af fjaðrafoki fjölmiðla, heldur heldur sinni ró og sér út eins og eðlilegt er þegar ástæða er til.

Mér fannst ástæða til þess, virðulegi forseti, að þetta sjónarmið kæmi fram í umræðunni, um frumvarp sem er keyrt með offorsi og eytt í miklum tíma til allra átta, til allra verksviða í Alþingi á sama tíma og það væri margfalt, margfalt mikilvægara að sinna beinum verkefnum sem varða til að mynda heimilin í landinu, atvinnulífið, bankastarfsemina, eflingu verkalýðshreyfingarinnar, samstarf við samtök atvinnulífsins. Nei, þá fara menn út í skætingsstílinn sem byggir ekki á því markmiði að ná árangri. Þetta er sorglegt og sýnir að menn hafa ekki klára stefnu á miðið, virðulegi forseti, menn hafa ekki tekið kúrsinn á miðið og lullað í einhverjum gír varðandi mál sem skila engu í þeim árangri sem nú þarf að vinna að. Með framtíðarsýn, með styrk og stefnu vegna þess að hvort sem Seðlabanki Íslands er við óbreyttar aðstæður einum mánuðinum til eða frá skiptir engu máli og er engin afsökun fyrir ríkisstjórn Íslands að hún geti ekki tekið á og afgreitt þau mál sem skipta máli. Það skiptir engu máli. Það er fyrirsláttur sem engin rök eru fyrir og það ber að harma slík vinnubrögð.