136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Nú þegar komið er að lokum 3. umr. vil ég þakka ítarlegar og málefnalegar ræður sem hér hafa verið fluttar. Ég hef hlýtt á allar ræður sem fluttar hafa verið í dag og þær voru flestar mjög málefnalegar og góðar og það er gott að ljúka umfjöllun þingsins um mál með þeim hætti.

Málið hefur verið í meðferð þingsins í ríflega þrjár vikur og það hefur fengið, þvert á það sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins segja, mjög vandlega umfjöllun. Ég vil þakka framlag nefndarmanna enn og aftur en ég vil fyrst og fremst þakka framlag þeirra fjölmörgu sem komu fyrir nefndina á níu fundum hennar, sömdu og skiluðu umsögnum, oft með mjög skömmum fyrirvara. En ég hef áður rakið að það komu 25 einstaklingar fyrir nefndina sumir oftar en einu sinni og nefndin hafði 18 umsagnir á sínum borðum, margar hverjar mjög ítarlegar.

Hér er í rauninni um að ræða mjög skýrt og einfalt mál, breytingar á skipulagi yfirstjórnar Seðlabanka Íslands með því að leggja af fjölskipað stjórnvald sem er þriggja manna bankastjórn bankans annars vegar og hins vegar er um það að ræða að formgera í lagatexta það starf sem peningastefnunefnd bankans hefur hingað til unnið samkvæmt samþykktum frá 2006, þær síðustu.

Ég ítreka að eina meginefnisbreytingin sem hefur orðið á frumvarpinu frá því að það var lagt fram 4. febrúar sl. er að tekið er tillit til ábendinga um að það skyldi ekki einungis ráða seðlabankastjóra heldur einnig aðstoðarbankastjóra að bankanum. Þar fyrir utan tók nefndin og Alþingi tillit til málefnalegra ábendinga, m.a. úr ræðum þingmanna við 1. umr., ábendingum frá gestum og úr álitum og það er, ágætur forseti, ekkert óeðlilegt við það. Þannig á þingið einmitt að starfa. Að minnsta kosti vil ég sjá þingið vinna þannig. Það er með svipuðum hætti og unnið er í sveitarstjórnum. Menn taka mál og vinna það í sameiningu þvert á flokkslínur. Út úr því kemur yfirleitt vandaðri texti og meiri samstaða en ella væri. Þannig hefur það verið með þetta mál og sýndi sig við 2. umr. þegar það var afgreitt mótatkvæðalaust, með 50 samhljóða atkvæðum.

Ég hlýt að taka það fram að ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að segja sig frá málinu hér með vegna þeirrar breytingartillögu sem hefur verið til umræðu í dag. Þetta er ekki efnisbreyting og langt í frá að vera grundvallarbreyting á verkefnum peningastefnunefndar. Þvert á móti er þetta til áréttingar á því hlutverki sem nefndinni var ætlað og til að koma í veg fyrir að við fljótum aftur sofandi að feigðarósi.

Herra forseti. Ég vil hvetja til þess að málið fái endanlega afgreiðslu og þakka aftur fyrir góðar umræður í dag.